Keflavík tryggði sér á dögunum deildarmeistaratitilinn í körfubolta en liðið var, fyrir leikinn í kvöld, í efsta sæti Subway-deildarinnar með fjögurra stiga forskot á Val þegar tvær umferðir voru eftir.
Grindavík var hins vegar í hinu afar óeftirsóknarverða fimmta sæti án þess að eiga möguleika á sæti í úrslitakeppninni.

Það var ekki mikið skorað í HS-Orku höllinni í kvöld. Jafnt var 15-15 eftir fyrsta leikhluta en heimakonur í Grindavík voru sterkari í öðrum leikhluta og leiddu 30-24 eftir fyrri hálfleik.
Í síðari hálfleik hélt Grindavík frumkvæðinu. Þær leiddu 47-36 fyrir fjórða leikhluta og gestirnir úr Keflavík líklega ekki skorað svona lítið í langan tíma.
Þær bitu hins vegar aðeins frá sér í fjórða leikhluta. Þær minnkuðu muninn mest niður í þrjú stig en komust ekki lengra en það. Grindavík var sterkara undir lokin og tryggði sér 63-57 sigur.
Elma Dautovic skoraði 13 stig fyrir Grindavík í kvöld auk þess að taka 13 fráköst og þá skoraði Amanda Okudugha 12 stig og tók 16 fráköst.
Hjá Keflavík varn Daniella Wallen langatkvæðamest með 15 stig og 10 fráköst.

Í Grafarvogi tóku Fjölniskonur á móti Val. Tímabil Fjölnis hefur verið erfitt en liðið hefur þó verið að spila vel að undanförnu eftir að Brittany Dinkins gekk til liðs við félagið. Í kvöld mætti Fjölnir hins vegar ofjarli sínum.
Valskonur tóku frumkvæðið strax í byrjun og leiddu 51-31 í hálfleik. Í síðari hálfleik varð munurinn mest fjörtíu stig og Valskonur fögnuðu að lokum 102-71 sigri.
Kiana Johnson og Simone Costa voru stigahæstur hjá Val með 23 stig en áðurnefnd Brittany Dinkins var stigahæst hjá Fjölni með 22 stig.
Valur lyftir sér í annað sæti deildarinnar með sigrinum en Haukar geta náð því á nýjan leik með sigri á Njarðvík í kvöld.