Frakkland hefur logað í mótmælum og uppþotunum undanfarnar vikur vegna umdeildra áforma Macron um að hækka eftirlaunaaldur úr 62 árum í 64. Forsetinn þvingaði breytingar í gegn fram hjá þinginu í síðustu viku. Mótmælendur báru meðal annars eld að ráðhúsinu í Bordeaux í gærkvöldi.
Heimsókn Karls konungs í París og Bordeaux átti að hefjast á sunnudag. Eftir að mótmælendur boðuðu til enn frekari aðgerða á þriðjudag í næstu viku var ákveðið að heimsóknin skyldi bíða betri tíma. Í yfirlýsingu bresku konungshallarinnar var vísað til „ástandsins í Frakklandi,“ að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Skrifstofa Macron segir að heimsókninni verði fundinn nýr tími sem fyrst þegar hægt verði að taka á móti Karli konungi við aðstæður sem séu í samræmi við vinasamband þjóðanna tveggja.