Handbolti

Magdeburg mistókst að ná toppsætinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir átti frábæran leik fyrir Magdeburg í dag.
Gísli Þorgeir átti frábæran leik fyrir Magdeburg í dag. Vísir/Getty

Melsungen tók á móti Magdeburg í Íslendingaslag í þýska handboltanum í dag. Magdeburg tryggði sér stig með marki úr vítakasti eftir að leiktíminn var liðinn.

Fyrir leikinn í dag var Magdeburg í þriðja sæti þýsku deildarinnar, einu stigi á eftir Kiel en tveimur á eftir toppliði Fusche Berlin. Melsungen, sem Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson var hins vegar um miðja deild.

Magdeburg þurfti því nauðsynlega á stigum að halda í baráttunni um titilinn en það voru heimamenn í Melsungen sem byrjuðu betur og komust meðal annars í 6-3 í upphafi leiks. Gestirnir sáu þó til þess að munurinn varð ekki meiri en Melsungen leiddi 16-13 í hálfleik.

Í síðari hálfleik hélt sama baráttan áfram. Í stöðunni 18-14 fyrir Melsungen náði Magdeburg 8-2 kafla og komst í tveggja marka forystu. Melsungen náði hins vegar að jafna á ný og komast yfir og eftir það var jafnt á öllum tölum.

David Mandic kom Melsungen í 27-26 þegar fjörtíu sekúndur voru eftir en á lokasekúndunni fékk lið Magdeburg vítakast sem Kay Smits skoraði úr. Niðurstaðan 27-27 og bæði lið eflaust svekkt með niðurstöðuna.

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg í leiknum og gaf þar að auki tvær stoðsendingar. Elvar Örn skoraði þrjú mörk fyrir heimamenn en Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×