Skoðun

Andinn & efnið

Árni Már Jensson skrifar

Er það ekki verðugt umhugsunarefni að á lægsta tímapunkti mannlegrar tilveru verður efnisheimurinn að engu í huga mannsins?

Rétt fyrir viðskilnað sálar og líkama umbreytist hugsun mannsins frá því að vera efnistengd í að vera andleg. Hverju sætir og hvaða öfl eru þarna að verki sem hafa þessi áhrif á hugsunina?

Jú, á þessum tímamótum upplifir maðurinn forgengileika efnisins á eigin skinni og líkama. Raunvísindin sem hann hefur treyst og trúað á allt sitt líf að komi honum að gagni reynast allt í einu haldlaus. Þarna gildir einu hvort maðurinn hafi verið trúmaður eða trúleysingi. Holdlíkami hans bregst honum þrátt fyrir öll þau lyf, bætiefni og læknisaðstoð sem hann hefur lagt traust sitt á. Þrátt fyrir allt það erfiði sem hann hefur lagt á sig til að viðhalda líkamlegri hreysti með hreyfingu og hollustu, þá virkar ekkert á þessari loka stundu.

Fasteignirnar, hlutabréfin og bílarnir hafa ekkert verðgildi lengur þrátt fyrir að hafa kostað blóð svita og tár að eignast og lungan úr ævinni að hlaða kringum sig.

Á þessum tímapunkti upplifir maðurinn aðeins þá einu ósk sem hann ávalt tók sem sjálfsagða – að fá að lifa.

Af hverju þarf maðurinn að snerta lægstu skör jarðvistarlífsins til að verða þess áskynja að hann hafi fórnað sálarþroskanum, sinni einu varanlegu eign, á altari hverfulleikans – altari efnisins?

Og hvað færir okkur betur heim vissuna um andann ofar efninu en hugsun mannsins og þrá á sinni hinstu stund – stund sannleikans.

Jesú sagði:

“Það mætti undur teljast ef holdið hefur orðið til fyrir tilstilli andans. En stærra undur hlýtur það að kallast ef andinn hefir orðið til fyrir tilstilli dauðlegs líkamans.

Ég furða mig aftur og aftur á því hvernig þessi stórkostlega auðlegð andans hefir tekið sér bólfestu í þessari fátæklegu eymd.”(Tómasarguðspjall 29. ummæli).

Höfundur er áhugamaður um betra líf, samfélag, kristna trú og menningu.




Skoðun

Sjá meira


×