Guðjón Valur er í miklum metum hjá báðum þessum félögum eftir glæstan leikmannaferil sinn og hann kunni vel við sig á sínum gamla heimavelli í dag.
Mikill hraði var í leiknum og leiddu gestirnir frá Gummersbach með sex mörkum í leikhléi, 18-24.
Rhein-Neckar Löwen er í toppbaráttunni en hafa verið í vandræðum að undanförnu og náðu ekki að snúa leiknum sér í hag í síðari hálfleik þar sem Gummersbach kláraði leikinn með fimm marka sigri, 37-42.
Elliði Snær Viðarsson skoraði átta mörk í leiknum líkt og Lukas Blohme og Julian Koster og voru þeir markahæstir í liði Gummersbach. Ýmir Örn Geirsson skoraði eitt mark fyrir Löwen.
Á sama tíma skoraði Sveinn Jóhannsson þrjú mörk í eins marks sigri Minden á Lemgo, 36-35.