Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Haukar 94-82 | Þór knúði fram oddaleik

Andri Már Eggertsson skrifar
340947850_170526599216403_2596417404828486617_n
vísir/diego

Þór Þorlákshöfn vann tólf stiga sigur á Haukum 94-82. Þórsarar voru ekki á því að fara í sumarfrí í kvöld. Heimamenn tóku frumkvæðið snemma og gáfu Haukum ekki færi á að koma til baka.

Úrslitin þýða að það verður oddaleikur í Ólafssal á mánudaginn. 

Gestirnir úr Hafnarfirði áttu fyrsta áhlaupið. Hilmar Smári Henningsson kveikti í húsinu þegar hann setti niður þrist og fékk körfu góða. Heimamenn sem voru með tímabilið undir í þessum leik vöknuðu sex stigum undir og tóku yfir leikinn.

Þórsarar fóru að spila afar vel varnarlega sem Haukar áttu í miklum vandræðum með. Varnarleikur Þórs þvingaði Hauka í sjö tapaða bolta í fyrsta leikhluta. Öflugur varnarleikur gaf heimamönnum sjálfstraust sem skilaði sér með körfum.

Tilþrif leiksins komu í öðrum leikhluta þegar Breki Gylfason varði skot Vincent Malik Shahid upp í stúku.

Þórsarar gáfu ekkert eftir í öðrum leikhluta og voru með yfirhöndina. Jordan Semple var illviðráðanlegur í fyrri hálfleik. Semple gerði 18 stig á sextán mínútum. Heimamenn voru átta stigum yfir í hálfleik 46-38.

Haukar byrjuðu seinni hálfleik ágætlega og náðu aðeins að saxa niður forskot Þórs Þorlákshafnar. Spilamennska Hauka var hins vegar afar óstöðug. Þegar Haukar náðu góðum stoppum varnarlega þá gekk lítið sóknarlega og öfugt. Heimamenn enduðu á að gera síðustu sex stigin í þriðja leikhluta og voru þrettán stigum yfir þegar haldið var í síðustu lotu.

Vincent Malik Shahid var stálheppinn að hafa ekki verið hent út úr húsi í upphafi fjórða leikhluta. Shahid fór í gegnum hindrun og rak olnbogann í andlitið á Emil Barja. Dómararnir skoðuðu atvikið í skjánum og gáfu Shahid óíþróttamannslega villu.

Haukar reyndu að skjóta sig inn í leikinn undir lok fjórða leikhluta en skotin voru ekki að detta og Þór Þorlákshöfn vann tólf stiga sigur 94-82.

Af hverju vann Þór Þorlákshöfn?

Það var allt annað að sjá spilamennsku Þórs Þorlákshafnar í kvöld miðað við síðasta leik. Heimamenn voru betri á flest öllum sviðum leiksins og gerðu vel í að halda í forystuna gegnum gangandi allan leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Jordan Semple var frábær sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem hann gerði 18 stig. Semple endaði með tvöfalda tvennu þar sem hann gerði 26 stig og tók 11 fráköst. 

Tómas Valur Þrastarson spilaði afar vel í kvöld. Tómas Valur spilaði afar vel í kvöld og endaði með 21 stig. 

Hvað gekk illa?

Sóknir Hauka voru oft afar klaufalegar. Haukar töpuðu tuttugu boltum sem var fimm boltum meira en Þór Þorlákshöfn.

Haukar voru með aðeins 85 framlagspunkta sem var 49 framlagspunktum minna en í síðasta leik. 

Hvað gerist næst?

Liðin mætast í oddaleik á mánudaginn klukkan 19:15 í Ólafssal. 

Hilmar Smári: Ætlum að vinna þá á heimavelli

Hilmar Smári Henningsson var svekktur eftir leikVísir/Pawel

Hilmar Smári Henningsson, leikmaður Hauka, var svekktur eftir tap gegn Þór Þorlákshöfn.

„Ég var óánægður með hvernig við mættum í leikinn og þeir vildu þetta miklu meira en við sem sást á stigatöflunni og í fráköstunum. Það var súrt hvernig við lentum undir og vorum alltaf að reyna bæta fyrir þau mistök sem við gerðum,“ sagði Hilmar Smári eftir leik.

Hilmari fannst afar erfitt að vera að elta Þór Þorlákshöfn allan leikinn.

„Allan leikinn var jafn mikill munur á liðunum og það var hrikalega erfitt að spila gegn þeim þegar við gátum ekki keypt okkur körfu og á meðan hittu þeir mjög vel.“

„Við fengum oft tækifæri til að skjóta okkur inn í þetta og þeir spiluðu góða vörn en við eigum bara að setja þessi skot ofan í og það er það sem við ætlum að gera á mánudaginn þegar við munum taka þá á okkar heimavelli.“

Hilmar Smári var afar spenntur fyrir oddaleiknum á mánudaginn.

„Er ekki oddaleikur það sem allir vilja. Maður segist vera að gera þetta fyrir þjóð og stuðningsmenn körfuboltans á Íslandi. Þetta verður skemmtilegur körfubolti og við ætlum að komast áfram,“ sagði Hilmar Smári Henningsson brattur að lokum. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira