Körfubolti

„Eftir jól höfum við verið besta varnarliðið í deildinni“

Andri Már Eggertsson skrifar
Lárus Jónsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins.
Lárus Jónsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins. Vísir/Bára Dröfn

Þór Þorlákshöfn vann Val 75-83 í fyrsta leik í undanúrslitum Subway-deildarinnar. Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, var afar ánægður með varnarleik Þórs sem að hans mati skilaði sigrinum.

„Mér fannst við með góða baráttu í fyrri hálfleik þar sem við tókum mikið af sóknarfráköstum. Við vorum ekki að hitta vel en baráttan var góð og við spiluðum frábæra vörn í þriðja leikhluta og það skóp sigurinn,“ sagði Lárus Jónsson eftir leik.

Eins og í oddaleiknum gegn Haukum þá hitti Þór Þorlákshöfn afar illa úr þriggja stiga skotum í fyrsta leikhluta en Lárus var ekki á því að þetta væri uppskrift hjá Þór.

„Við ætlum bara að láta vaða og annað hvort hitta þeir eða ekki. Þetta voru Davíð Arnar og Emil Karel sem voru að fá opin skot. Þetta eru nákvæmlega þeir leikmenn sem við viljum að séu að skjóta en ég var einnig ánægður með sóknarfráköstin sem við tókum. Það er gott að vita af því þegar þú ert að skjóta að það koma menn sem styðja við bakið á þér.“

„Mér fannst við fara frá sóknarfráköstunum í seinni hálfleik. Ég var rosalega ánægður með vörnina í þriðja leikhluta þar sem við lokuðum á Val.“

Lárus var afar ánægður með varnarleikinn í þriðja leikhluta sem gerði það að verkum að Valur gerði ekki stig síðustu þrjár og hálfa mínútuna. 

„Við vorum ákafir og gerðum vel í maður á mann vörninni og síðan var alltaf einhver tilbúinn að hjálpa. Við vorum með leikmenn inn á sem voru tilbúnir að spila góða vörn.“

Þór Þorlákshöfn vann 75-83 en Lárus var ekki á því að Þór hafi tekið Val á eigin bragði heldur hafi varnarleikur Þórs verið frábær eftir áramót. 

„Við spiluðum góða vörn. Eftir jól höfum við verið besta varnarliðið í deildinni og margir gleyma því,“ sagði Lárus Jónsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×