Tyrfingur, sem oft er kallaður undrabarn íslensks leikhúss, segir frá lífi sínu, leik og listum í nýjasta þætti Einkalífsins.
Aðspurður hvaða í lífsreynsla hafi haft hvað mest mótandi áhrif á listsköpun hans og lífssýn nefnir hann meðal annars starfsreynslu sína á bráðageðdeild Landsspítalans.
Ég byrjaði að vinna þarna bara tvítugur og finnst alveg brjálæðislega gaman. Mér fannst þetta bara smá eins og ættarmót og bara mjög heimilislegt,
segir Tyrfingur kíminn. Hann vísar þá meðal annars til ömmu sinnar, ömmu Möllu, en skrautlegt líf hennar var Tyrfingi mikill innblástur í leikritinu Sjö ævintýri um skömm.
Viðtalið við Tyrfing í heild sinni er hægt að nálgast í spilaranum hér fyrir neðan.
Brást rólegur við morðhótun
Að fá tækifæri til þess að kynna sér bakgrunn og sögu sjúklinganna segir Tyrfingur hafa verið sér afar dýrmætt og engu að síður mikilvægt til að mæta fólki á þeim stað sem þau eru.
„Ég veit afhverju það er þarna og það er eitthvað við það. Það er líka mikilvægt í leikhúsinu og fyrir mig sjálfan að skilja hægt og rólega þessar kringumstæðum. Ég vandaði mig rosalega mikið þarna.“

Tyrfingur minnist atviks þegar hann var nýbúinn að fá skýrslu einnar konu í hendurnar og kynna sér forsögu hennar.
Hún kemur svo til mín og segir; veistu það, ég ætla að drepa þig! Ég segi þá; Veistu það, ég var að lesa söguna þína og ég bara skil það bara vel.
Stundum mikilvægara að vera til staðar en að reyna að hjálpa
Viðbrögð konunnar segir Tyrfingur afar eftirminnileg.
„Hún bara sprakk úr hlátri, henni fannst þetta svo fyndið. Svo fórum við bara út í sígó saman.“
Hann segir þetta atvik, og önnur sambærileg, hafa haft mikil áhrif á hugsun hans þegar kemur að skilning og persónusköpun en einnig kennt honum hversu mikilvægt það er að mæta fólki á þeim stað sem það.
Af því að ég hafði kannski engar faglegar forsendur til að hjálpa fólki þá sat ég bara þarna og heyrði hvað þau voru að segja. Stundum var það bara akkúrat sem sumir vildu í rauninni.