Þrjátíu og fimm manns undir fimmtugu sem hafa undirgengist meðferð á Vogi á árinu hafa látið lífið það sem af er ári. Mikil umræða hefur verið undanfarna daga um ópíóðafaraldur sem virðist geisa í samfélaginu.
Forstjóri Vogs óttast að andlátum muni fjölga frekar ef ekki verði gripið inn í. Hún segir mikið af tækifærum til að gera betur í meðferðarstarfi hér á landi, þörfin sé gríðarleg. Ekki sé þó skortur á úrræðum heldur vanti aukið fjármagn.
Ragnar Erling Hermannsson hefur rætt mjög opinskátt um fíknivanda sinn í gegnum tíðina og verið iðinn við að deila reynslu sinni í von um að það hjálpi öðrum. Hann segir ekki rétt að næg úrræði séu til staðar fyrir fólk með fíknivanda.
„Það vantar svo sannarlega fleiri úrræði fyrir fólk með fíknivanda. Þetta er ekki rétt hjá Valgerði þegar hún segir þetta af því það vantar meiri fjölbreytileika,“ segir Ragnar og bætir við að fíknisjúkdómi fylgi skömm og sektarkennd. „Þetta eru djúp sár sem þurfa að vera í öruggu umhverfi án þess að það sé skamm, fliss eða neitt.“
Ragnar segir fíknisjúkdóminn geta verið mjög subbulegan. „Því miður er það prógramm sem boðið er upp á meðferðarstofnun ekki nóg. Oft er regluverkið í kringum þessar stofnanir á þá vegu að starfsfólkið innan þeirra veggja, sem langar að gera hvað segir er fyrir okkur, þannig að þau mega ekki fara út fyrir þann ramma því þá eiga þau á hættu að missa fjármagnið og fjárlögin,“ segir hann.
Að sögn Ragnars er fíknisjúkdómurinn læknanlegur en beita þurfi réttum aðferðum. Hann segir fagnar orðum heilbrigðisráðherra um þjóðarátak og hyggst gefa yfirvöldum eitt tækifæri í viðbót til að gera úrbætur.