Það var sannkallað vetrarríki sem tók á móti höfuðborgarbúum í morgunsárið. Fréttastofa fór á rúntinn upp í Breiðholt og ræddi við íbúa sem kipptu sér mismikið upp við snjóinn, þar á meðal Wiktoria sem hefur búið á Íslandi í tvö ár og var nýbúin að fá fjölskyldu sína í heimsókn.
„Við vorum búin að skipuleggja ferð í dag og þetta kom okkur mjög á óvart. En þetta er samt voða fínt, þetta er fyrsta ferð fjölskyldu minnar til Íslands. Þau geta notið vetur og vors á sama tíma,“ sagði Wiktoria.
Þetta er aðeins í fimmta sinn á sjötíu og fimm árum sem snjódýpt mælist tíu sentímetrar eða meiri í höfuðborginni eftir miðjan apríl.
Snjórinn innan borgarmarkanna getur þó varla talist annað en létt föl miðað við skaflana sem mynduðust á Selfossi í dag. Þar þurftu snjómokstursmenn að hafa hraðar hendur í morgun, eins og sést í meðfylgjandi myndbandi. Sama var uppi á teningnum á Hellu, þar sem sannarlega var ekki að sjá að sumardeginum fyrsta hefði verið fagnað fyrir réttri viku. Myndefnið frá Hellu tók Bjarki Eiríksson.
Viðtöl við íbúa í Breiðholti og ótrúlegar myndir af snjónum í borginni og á Suðurlandi má sjá í innslaginu hér fyrir ofan.