Fyrir leikinn í dag var Valencia í áttunda sæti deildarinnar sem er síðasta sætið sem gefur pláss í úrslitakeppninni. Baxi Manresa var hins vegar á meðal neðstu liða, með jafn mörg stig og Betis og Granada en aðeins Carplus Fuenla var neðar í töflunni.
Heimaliðið var þó sterkara liðið í dag. Baxi Manresa leiddi 44-36 eftir góðan annan leikhluta og bætti í forystuna fyrir lokafjórðunginn, staðan þá 67-56 heimamönnum í vil.
Valencia tókst að minnka muninn í fjögur stig um miðjan fjórða leikhluta og skoraði svo þriggja stiga körfu þegar fjórar sekúndur voru eftir og minnkuðu þá muninn í þrjú stig. Þeir brutu á leikmanni Baxi Manresa sem setti hins vegar niður bæði vítin og tryggði heimaliðinu 87-82 sigur.
Martin Hermannsson spiaði í rúmar þrettán mínútur fyrir Valencia. Hann skoraði þrjú stig, tók þrjú fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Martin er óðum að ná fyrra formi eftir að hafa verið frá í langan tíma vegna krossbandsslita.