Þetta segir í yfirlýsingu frá stéttarfélögunum tveimur. Fimmtíu og sjö starfsmönnum sveitarfélagsins Árborgar var sagt upp 18. apríl síðastliðinn og voru uppsagnirnar fyrsti liðurinn í aðhaldsaðgerðum sveitarfélagsins vegna erfiðrar fjárhagsstöðu.
Stéttarfélög þessara starfsmanna segja nú að uppsagnirnar hafi verið „ískaldar.“ Misjafnlega hafi verið staðið að þeim.
„Dæmi voru um að starfsfólk var látið bíða í röð eftir að mæta í viðtalsherbergi þar sem þeir sem voru á undan komu út gjörsamlega niðurbrotnir. Í einhverjum tilfellum mættu fulltrúar inn á stofnanir og sáu um framkvæmd uppsagna án þess að hafa hitt viðkomandi áður,“ segir í yfirlýsingu frá Báru, stéttarfélagi og Foss, stéttarfélagi í almannaþjónustu.
„Eina sem var í boði á þessari niðurlægjandi stund voru einhverjar kennslustundir ráðgjafafyrirtækis í að leita að vinnu.“
Segja Árborg beina spjótum að fólki með lægstu launin
Stéttarfélögin mótmæla framkvæmdinni og segja íbúum hafa verið mjög brugðið og ekki sé séð fyrir endann á því hve margir muni missa vinnuna.
„Þetta er kunnuglegt stef hjá Sveitarfélaginu Árborg því ekki er langt síðan að uppsagnir á ræstingafólki áttu að hagræða verulega rekstri. Stéttarfélögin lýsa áhyggjum sínum yfir því að þetta bitni fyrst og fremst á konum, lágtekjuhópum, þjónustuþegum og þjónustu almennt.“
Þau segja þetta kaldar kveðjur frá bæjarstjórn og lítilsvirðing fyrir störfum þessara hópa.
„Því miður virðast gömul sannindi vera að raungerast enn og aftur með því að segja þeim upp sem lægst hafa launin þegar spara þarf fjármuni, en hlífa þeim sem hæstu launin hafa. Félögin skora á bæjarstjórn að finna aðrar leiðir til hagræðingar og draga uppsagnir hjá fyrrgreindum hópum til baka.“