Federico Gatti reyndist hetja Juventus er liðið gerði 1-1 jafntefli gegn Sevilla í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í kvöld. Á sama tíma vann Roma góðan 1-0 sigur gegn Bayer Leverkusen í hinni undanúrslitaviðureigninni.
Þrátt fyrir að hafa verið meira með boltann í leiknum gekk Juventus erfiðlega að ógna marki gestanna í kvöld. Youssef En-Nesyri kom gestunum í Sevilla í forystu með marki á 26. mínútu eftir stoðsendingu frá Lucas Ocampos.
Þetta virtist ætla að verða eina mark leiksins, en varamaðurinn Federico Gatti bjargaði heimamönnum fyrir horn þegar hann jafnaði metin fyrir Juventus á sjöundu mínútu uppbótartíma.
Niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli og liðin fara því með jafna stöðu til Spánar þar sem þau mætast á nýjan leik að viku liðinni.
FT | Termina così la gara di andata.#JUVSEV #UEL pic.twitter.com/g1AOtQwN2S
— JuventusFC (@juventusfc) May 11, 2023
Á sama tíma mættust Roma og Bayer Leverkusen í Rómarborg þar sem heimamenn höfðu betur, 1-0. Edoardo Bove skoraði eina mark leiksins á 63. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti Tammy Abraham sem markvörður Sevilla, Lukas Hradecky, hafði varið.