Leit í Shakahola-skóginum í suðvestanverðu Kenía hefur nú skilað 201 líki. Þau eru talin tilheyra fólki sem tilheyrði sértrúarsöfnuðinum Good News International Church. Paul Mackenzie, leiðtogi hans, hefur verið í haldi lögreglu undanfarnar vikur og á yfir höfði sér ákæru fyrir hryðjuverkastarfsemi, að sögn AP-fréttastofunnar. Krufning á líkunum bendir til þess að fólkið hafi soltið, verið kæft og barið.
Talið er að Mackenzie hafi látið safnaðarmeðlimi fremja hópsjálfsmorð með því að svelta sig til bana svo þeir kæmust til himna fyrir heimsenda. Fleiri en sex hundruð manns sem eru taldir hafa verið í söfnuðinum er saknað, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Titus Katana, safnaðarmeðlimur og fyrrverandi aðstoðarprédikari, segir New York Times að Mackenzie hafi gefið fyrirskipanir í janúar um að fólk ætti að svelta börn sín úti í sólinni til þess að þau dæju sem fyrst. Með vorinu var röðin komin að konum og svo körlum.
Mackenzie hafi sjálfur ætlað að lifa áfram til þess að hjálpa fylgjendum sínum að „hitta Jesúm“ með því að svelta sig. Þegar því væri lokið ætlaði hann að svelta sjálfan sig til dauða áður en til heimsenda kæmi.
Katana segir að hann hafi verið hættur í söfnuðinum þegar sjálfsvígin hófust en hann hafi heyrt af þeim frá fólki sem varð eftir. Hann hafi gert lögreglu viðvart um að börn væru að deyja í skóginum en hún hafi ekkert aðhafst fyrr en það var þegar orðið of seint.