Handbolti

Arnór og félagar settu strik í reikninginn í toppbaráttu Füchse Berlin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnór Þór fagnar marki.
Arnór Þór fagnar marki. vísir/Getty

Arnór Þór Gunnarsson og félagar hans í Bergischer unnu óvæntan fjögurra marka sigur er liðið tók á móti toppbaráttuliði Füchse Berlin í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, 34-30.

Ef frá eru taldar fyrstu mínúturnar voru Arnór og félagar yfir allan leikinn og náðu mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik, en staðan var 15-12 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Liðið jók svo forskot sitt nokkuð örugglega í upphafi síðari hálfleiks og náði mest sjö marka forskoti í seinni hálfleik. Gestirnir náðu aldrei að ógna forskoti Bergischer af neinu viti og niðurstaðan varð fjögurra marka sigur Arnórs og félaga, 34-30.

Arnór þór skoraði fjögur mörk fyrir Bergischer í dag.

Füchse Berlin er því enn með 47 stig í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliðum Kiel og Magdeburg þegar liðið á aðeins fjóra leiki eftir á tímabilinu. Bergischer situr hins vegar í áttunda sæti með 30 stig eftir jafn marga leiki.

Þá skoraði Arnar Freyr Arnarsson tvö mörk fyrir Melsungen er liðið vann sjö marka sigur gegn Sveini Jóhannssyni og félögum hans í Minden, 28-21. Úrslitin þýða að Minden þarf að sigra að minnsta kosti þrjá af seinustu fjórum leikjum sínum til að eiga möguleika á að halda sæti sínu í deildinni, en Melsungen siglir lygnan sjó um miðja deild.

Að lokum unnu Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg öruggan fimm marka sigur gegn Íslendingaliði Gummersbach, 31-26.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×