Handbolti

Þjálfari Teits sár og svekktur út í vinnu­veit­endur sína

Sindri Sverrisson skrifar
Mark Bult stýrir Flensburg en aðeins tímabundið.
Mark Bult stýrir Flensburg en aðeins tímabundið. Getty/Axel Heimken

Handboltaþjálfarinn Mark Bult segir vinnuveitendur sína hjá Flensburg, sem Teitur Örn Einarsson leikur með, aldrei hafa gefið sér raunverulegt tækifæri á að sanna sig.

Bult tók við stjórnartaumunum hjá þýska stórliðinu eftir að Flensburg rak þjálfarann Maik Machulla fyrir mánuði síðan.

Bult, sem er Hollendingur, hafði verið aðstoðarmaður Machulla og var fenginn til að stýra Flensburg út tímabilið. Hins vegar varð fljótt ljóst að forráðamenn Flensburg vildu svo fá Nicolej Krickau til að taka við í sumar, þegar hann losnaði frá danska liðinu GOG.

Flensburg tilkynnti svo um ráðninguna á Krickau í síðustu viku. Þess má geta að Krickau er á meðal þeirra sem orðaðir höfðu verið við landsliðsþjálfarastarf Íslands, og að GOG hefur sóst eftir því að fá Snorra Stein Guðjónsson til að taka við af Krickau.

„Við höfum öll lesið um eða séð það í sjónvarpinu að félagið vildi gefa mér sanngjarnt tækifæri,“ sagði Bult í samtali við þýska blaðið Bild.

„Mín tilfinning er sú að þetta tækifæri hafi aldrei orðið til,“ bætti Bult við. Hann hefur lítinn áhuga á því að fara aftur út í það að vera aðstoðarþjálfari.

„Ég var búinn að verja miklum tíma í að móta mínar hugmyndir fyrir næstu leiktíð. Nýjan grunn í spilamennskunni, nýja hugmyndafræði, nýjan strúktúr. En eftir eina viku var greint frá því að þeir væru að einbeita sér að öðrum þjálfara. Ég er vonsvikinn yfir því,“ sagði Bult sem er með samning við Flensburg sem gildir til ársins 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×