Handbolti

Tíu íslensk mörk í þýsku deildinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Arnar Freyr í leik með Melsungen
Arnar Freyr í leik með Melsungen Vísir/Getty

Arnar Freyr Arnarsson og Arnór Þór Gunnarsson áttu fína leiki fyrir sín lið í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld. Magdeburg jafnaði Kiel að stigum á toppnum með stórsigri á Minden.

Arnar Freyr og félagar hans í Melsungen tóku á móti Valsbönunum í Göppingen á heimavelli sínum í kvöld. Melsungen leiddi með fjórum mörkum í hálfleik en fyrir leikinn var Melsungen einu stigi á undan Göppingen í töflunni.

Í seinni hálfleik minnkaði Göppingen muninn mest niður í eitt mark en tókst ekki að jafna. Melsungen fagnaði að lokum 26-23 sigri og situr í tíunda sæti deildarinnar eftir sigurinn. Arnar Freyr skoraði fjögur mörk í fjórum skotum fyrir Melsungen.

Ýmir Örn Gíslason lék með liði Rhein-Neckar Löwen sem vann tíu marka sigur á Bergischer á heimavelli. Ljónin eru í fimmta sæti deildarinnar og munu ekki enda neðar í töflunni enda níu stig niður í næsta lið.

Lokatölur í kvöld 39-29 en Arnór Þór Gunnarsson skoraði fimm mörk fyrir Bergischer. Ýmir Örn komst ekki á blað hjá Löwen.

Þá komst Íslendingalið Magdeburg upp að hlið Kiel á toppi deildarinnar með fjórtán marka sigri á Minden. Lokatölur 44-30 en hvorki Gísli Þorgeir Kristjánsson né Ómar Ingi Magnússon leika meira með Magdeburg á tímabilinu vegna meiðsla.

Sveinn Jóhannsson skoraði eitt mark fyrir Minden í leiknum en hann fór af velli með rautt spjald um miðjan seinni hálfleikinn. Eftir tapið er ljóst að Minden er fallið úr þýsku deildinni en Aðalsteinn Eyjólfsson tekur við þjálfun liðsins í sumar og þá mun Bjarni Ófeigur Valdimarsson ganga til liðs við félagið á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×