Messi hefur leiki með franska liðinu PSG síðustu tvö árin en ljóst var fyrir nokkru síðan að hann yrði ekki áfram í Frakklandi. Hann hefur verið orðaður við félagaskipti í Sádiarabísku-deildina sem og endurkomu til Barcelona.
„Þetta er 100% klárt, ég fer til Inter Miami,“ sagði Messi í viðtali við spænska fjölmiðilinn Mundo fyrr í kvöld.
— Inter Miami CF (@InterMiamiCF) June 7, 2023
Í kjölfar þess að félagaskiptin voru staðfest hækkaði miðaverð á leiki liðs Inter Miami. Nú er til dæmis ódýrara að kaupa sér miða á þriðja leik Denver Nuggets og Miami Heat í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar heldur en á leik Inter Miami og Cruz Azul sem sumir telja að verði fyrsti leikur Messi í MLS-deildinni.
Í viðtalinu í kvöld kom einnig í ljós að viðræður Messi og Barcelona fóru vissulega fram en að spænska deildin hafi verið treg til að samþykkja mögulegan samning hans.
„Augljóslega var ég vongóður um að ég gæti snúið aftur til Barcelona, en eftir það sem gerðist og hvernig ég fór þá vildi ég ekki fara í gegnum sömu hlutina og skilja framtíð mína eftir í höndum annarra. Ég varð að taka mína eigin ákvörðun og hugsa um mig og fjölskyldu mína. Ég tók þá ákvörðun að fara til Miami,“ sagði Messi
David Beckham er eigandi Inter Miami og hefur nú landað þeim knattspyrnumanni sem flestir telja besta leikmann sögunnar í MLS-deildina.