„Tilfinningin er bara ólýsanleg. Við erum búnar að bíða lengi eftir þessu og þetta er búið að vera erfiður tröppugangur, en bara loksins. Við lögðum allt í þetta og þetta er bara geggjuð tilfinning,“ sagði Barbára Sól að leik loknum.
Selfyssingar hafa átt í miklum vandræðum með að skora og skapa sér færi í sumar, en Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfyssinga, virðist eiga ás uppi í erminni og Barbára sýndi að hún getur vel spilað frammi fyrir liðið.
„Þetta var geggjað. Ég þráði að skora og nýtti tækifærið og lagði hann í netið.“
„Ég hef ekki spilað frammi síðan í 5. flokki, en þetta var bara geggjað. Ég tók þetta á mig og gerði það með stæl.“
Barbára þurfti þó að fara af velli eftir rúmlega klukkutíma leik vegna meiðsla. Hún fékk þá tak aftan í lærið, en hefur ekki trú á því að meiðslin muni halda henni frá keppni.
„Nei ég held ekki. Þetta var bara smá hnjask og vonandi verð ég bara komin aftur í næsta leik,“ sagði Barbára að lokum.