Á vef Veðurstofunnar segir að lægðin muni valda vestlægri átt í dag, fimm til tíu metrum á sekúndu og að víða megi búast við vætu. Minnsta úrkoman verði líklega á Suðausturlandi og Austfjörðum, en þar megi þó búast við einhverjum dropum.
Hiti verður á bilinu sjö til fimmtán stig þar sem hlýjast verður suðaustanlands.
„Á morgun þokast áðurnefnd lægð til norðurs og verður miðja hennar yfir landinu. Lægðin verður þá orðin gömul og þrýstiflatneskja í miðju hennar, stundum er þá talað um flatbotna lægð. Það þýðir að vindur nær sér ekki á strik á morgun, vindátt breytileg og hraðinn 3-8 m/s. Enn er þó nægur raki eftir í lægðinni og á morgun má víða búast við skúrum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Norðaustlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og allvíða skúrir. Hiti 7 til 14 stig.
Á laugardag: Norðaustan 5-13 og dálítil væta norðanlands. Hægari sunnantil og líkur á skúrum, einkum síðdegis. Hiti breytist lítið.
Á sunnudag: Norðaustanátt og dálítil rigning með köflum, en að mestu þurrt á Suður- og Vesturlandi. Hiti 7 til 18 stig, hlýjast sunnanlands.
Á mánudag: Norðaustlæg átt og bjart með köflum vestantil, annars skýjað en úrkomulítið. Hiti breytist lítið.
Á þriðjudag og miðvikudag: Norðaustanátt og smáskúrir, en bjart með köflum sunnan heiða. Hiti 7 til 16 stig, mildast suðvestanlands.