Nokkur þúsund jarðskjálftar hafa mælst frá því að jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga á þriðjudagskvöld. Aðfaranótt fimmtudags dró heldur úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga en alls mældust þá 750 skjálftar eftir miðnætti. Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni segir minni jarðskjálftavirkni geta verið undanfara eldgoss.
Þá hefur Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sagt að atburðarásin á Reykjanesskaga sé kunnugleg. Hún minni á aðdraganda fyrri gosa á svæðinu. Hann segir að erfitt sé að meta líkur á gosi út frá takmarkaðri tölfræði en ef miðað sé við hana séu um það bil 67 prósent líkur á gosi.