Í tilkynningu segir að tónlist plötunnar sé draumkennt popp þar sem hljóðgervlar, lifandi hljóðfæraleikur og ógrynni af radd-rásum vefjast saman. Meðal þeirra hljóðfæra sem notuð voru við gerð plötunnar má nefna orgel í Flatey og rammfalskt píanó í dönskum smábæ. Þá hafi brak úr stól orðið að trommutakti í einu laganna.
Fjögur lög eru á smáskífunni. Þau fjalla um ást, merkingu orða og tilveruna. „Lögin eru tilraun til þess að setja flóknar tilfinningar í stærra samhengi, að skilja eigin hug og annarra, eða allavega reyna það,“ segir í tilkynningu.

Þá segir að stuttskífan hafi verið samin, útsett og tekin upp á heimilum, flugvöllum, kirkjum og kaffihúsum í nokkrum löndum. Vakin er athygli á því hve aðgengileg sköpun tónlistar er orðin. Hægt sé að fikta, breyta og semja sama lagið í hringi.
Í síðasta mánuði gaf Róshildur frá sér lagið Fólk í blokk, sem er eitt fjögurra laganna á stuttskífunni. Í laginu fékk hún að láni texta Ólafs Hauks Símonarsonar um Fólkið í blokkinni, úr samnefndum söngleik, og setti hann í nýjan búning. Hægt er að hlusta á lagið hér að neðan.
Róshildur, sem heitir fullu nafni Anna Róshildur Benediktsdóttir Bøving, útskrifaðist af sviðshöfundadeild Listaháskóla Íslands síðasta sumar og hefur síðan þá unnið við leikstjórn. Nú snýr hún sér að tónlistinni, sem þó hefur fylgt henni meðfram sviðsverkum hennar.
Platan er aðgengileg á Spotify og hana má nálgast hér.