Umfjöllun: Austur­ríki - Ís­land 0-1 | Mark á loka­mínútunni tryggði Ís­landi sigur

Kári Mímisson skrifar
356404330_10159024210062447_7353757017727267542_n
vísir/anton

Ísland mætti Austurríki í vináttulandsleik ytra nú í kvöld. Þetta var í annað sinn sem liðin mætast en síðasti leikur var lokaleikur riðlakeppni EM árið 2017 þegar lið Íslands tapaði 3-0. Annað var uppi á teningnum í dag og kláruðu stelpurnar okkar þetta verkefni í 0-1.

Íslensku stelpurnar byrjuðu leikinn betur og náðu að skapa sér nokkur ágætis færi snemma leiks. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir komst næst því að skora þegar langur bolti úr vörninni rataði beint í hlaupaleið Sveindísar Jane Jónsdóttur sem komst alla leið að endamörkum og lagði boltann þaðan á Karólínu en skot hennar var ekki nægjanlega gott og Manuela Zinsberger í marki Austurríkis varði það.

Austurríska liðið sótti í sig veðrið um miðbik fyrri hálfleiksins og átti nokkur ágætis skot að marki okkar Íslendinga. Marie Höbinger átti hörku skot af löngu færi sem hafnaði í stönginni og það var svo Barbara Dunst sem lauk seinni hálfleiknum á frábæru skoti sem Cecilía Rán í marki okkar Íslendinga varði glæsilega. Staðan eftir ansi tíðinda lítinn fyrri hálfleik því 0-0.

Fyrsta mark Hafrúnar tryggði sigurinn

Íslensku stelpurnar hófu seinni hálfleikinn vel og var Sveindís Jane Jónsdóttir hársbreidd frá því að koma Íslandi yfir þegar hún komst ein inn á teig Austurríkis eftir langan bolta frá Hlín Eiríksdóttur. Sveindís náði þó ekki alveg að athafna sig nægilega vel en náði þó að vippa boltanum yfir Zinsberger í marki Austurríkis en boltinn hafnaði rétt framhjá.

Skömmu seinna átti Sveindís enn og aftur hættulegt hlaup upp kantinn og náði að leggja boltann út á Diljá Ýr Zomers en skot hennar fór framhjá markinu.

Eftir þetta róaðist leikurinn töluvert og allt stefndi í markalaust jafntefli þar til á 90. mínútu þegar íslenska liðið náði að brjóta ísinn. Það gerði Hafrún Rakel Halldórsdóttir eftir frábær tilþrif Hlínar Eiríksdóttur. Berglind Rós Ágústsdóttir átti þá góða sendingu inn fyrir vörn Austurríkis á Hlín sem náði að losa sig úr erfiðri stöðu. Hlín átti fast skot að marki sem Zinsberger varði en Hafrún var rétt kona á réttum stað og boltinn rúllaði af henni í markið. Fyrsta mark Hafrúnar fyrir Ísland staðreynd en innkoma hennar í dag var mjög góð.

Meira markvert gerðist ekki í þessum leik og 0-1 sigur Íslands því niðurstaðan í annars tíðinda litlum leik.

Íslenska liðið varðist vel í dag og náðu þær austurrísku ekki að skapa sér nein opin marktækifæri og ógnuðu helst með skotum fyrir utan teig sem Cecilía Rán réði vel við. Þó svo að það hafi verið mikill vináttubragur yfir þessum leik þá voru mörg góð teikn á lofti hjá liðinu í dag og spennandi að sjá stelpurnar spreyta sig í Þjóðardeildinni í haust.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira