Enski boltinn

Pochettino: Gat ekki horft á allt viðtalið við Dele Alli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Mauricio Pochettino hefur miklar mætur á Dele Alli og sá síðarnefndi blómstraði undir hans stjórn.
 Mauricio Pochettino hefur miklar mætur á Dele Alli og sá síðarnefndi blómstraði undir hans stjórn. Getty/Tottenham Hotspur FC

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea og fyrrum knattspyrnustjóri Tottenham, segir að það hafi verið of erfitt fyrir sig að horfa á viðtalið við Dele Alli.

Dele Alli sagði frá þá öllum þeim erfiðleikum sem hann þurfti að glíma við, misnotkun þegar hann var sex ára, áfengissjúka móður og að sem átta ára strákur hafi Alli verið farinn að selja eiturlyf út á götu. Alli sagðist líka hafa verið orðinn háður svefntöflum og hafi farið í meðferð fyrr í sumar.

Hinn 27 ára gamli Alli kom til Tottenham árið 2015 og spilaði í fjögur ár undir stjórn Pochettino. Hann sló í gegn undir stjórn Argentínumannsins en Pochettino var síðan rekinn í nóvember 2019.

Alli hefur verið á niðurleið síðan að Pochettino fór. Hann fór frá Tottenham til Everton og þaðan til Tyrklands en lítið hefur gengið upp hjá honum.

Pochettino hafði talað um það að ætla að heyra í Alli hljóðið áður en viðtalið svakalega kom fram í dagsljósið.

„Það var mjög erfitt fyrir mig að sjá hann þarna. Ég gat ekki klárað viðtalið af því að það var svo sárt að horfa á þetta. Hann veit að við elskum hann og hversu mikilvægur hann er fyrir okkur sem persóna,“ sagði Mauricio Pochettino við ESPN.

„Hann var stórkostlegur sem leikmaður en hann hefur líka mjög stórt hjarta. Auðvitað erum við í sambandi. Eftir Bandaríkjaferðina þá vonast ég til að hitta hann í London og gefa honum gott faðmlag,“ sagði Pochettino.

„Það er alltaf erfitt að horfa á einhvern sem þú elskar í svona viðtali. Það var virkilega sársaukafullt fyrir mig. Hann er sterkur, ótrúlegur gæi og það öruggt að hann verður enn sterkari,“ sagði Pochettino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×