Það má með sanni segja að hún sé skrýtin tík, pólitíkin. Þegar litið er til spænskra stjórnmála sléttri viku eftir þingkosningarnar má segja að allt sé á hvolfi.
Lýðflokkurinn vann en getur samt ekki myndað stjórn
Lýðflokkurinn var ótvíræður sigurvegari kosninganna, hann jók fylgi sitt um tólf prósentustig og fór úr 89 þingmönnum í 136, hann bætti við sig 47 þingmönnum.
Engu að síður horfir formaður flokksins Alberto Feijóo nú niður í hyldýpi vonleysis um að mynda ríkisstjórn að loknum kosningum.
Þegar þar við bætist að Lýðflokkurinn leiðir meirihluta í tólf sjálfsstjórnarhéruðum Spánar af sautján og vermir borgarstjórastól allra stærstu borga Spánar nema Barcelona, þá er eðlilegt að menn spyrji sig: Hvernig getur staðið á þessu?
Og svarið er hreinlega: Öfgahægriflokkurinn VOX.
Það er í það minnsta niðurstaða fréttaskýrenda dagblaðsins El Mundo sem þó er leynt og ljóst málgagn hægri manna á Spáni.
Ráðamenn Lýðflokksins bera enn fullt traust til Feijóo
Blaðið segir að innsti hringur Lýðflokksins sé þeirrar skoðunar að hræðsluherferð vinstri flokkanna við hægri stjórn með öfgahægriflokkinn VOX innanborðs hafi einfaldlega borið árangur.
Sömuleiðis sé ljóst að mörgum stuðningsmönnum Lýðflokksins hugnist alls ekki samstarf við VOX. Þá hafa flokkar aðskilnaðarsinna í Baskalandi og Katalóníu þvertekið fyrir að styðja ríkisstjórn með VOX innanborðs.
Engin ástæða sé þó enn til að afskrifa Feijóo, honum hafi á einungis fimmtán mánuðum tekist að koma flokknum úr erfiðri stöðu og gera hann aftur að stærsta flokki Spánar. Hann eigi nú að leiða stjórnarandstöðuna, vera mun grimmari við VOX-liða og þannig freista þess að vinna tilbaka stuðningsmenn VOX sem flestir eru fyrrverandi stuðningsmenn Lýðflokksins.
Áframhaldandi samsteypustjórn til vinstri enn líklegust
Líklegasta stjórnarmynstrið nú er áframhaldandi samsteypustjórn Sósíalista og vinstra bandalagsins Sumar, með stuðningi aðskilnaðarsinna Baska og Katalóna sem þrýsta á að hefja formlegar viðræður.
Það gæti þó orðið eitrað epli fyrir Pedro Sanchez, leiðtoga sósíalista; annars vegar eru nú þegar komnar sprungur í kosningabandalag vinstri flokkanna og hins vegar gæti eftirlátssemi við aðskilnaðarsinna í Katalóníu hreinlega leitt til mikillar fylgisaukningar við báða hægri flokkana, Lýðflokkinn og VOX.
Svo má ekki gleyma því að Feijóo hefur ekki lokað á þann möguleika að vinna þvert yfir miðjuna með Sánchez og sósíalistaflokknum.