Enski boltinn

Óttast það að það gæti tekið átján mánuði að selja Man. Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Félagar úr 1958 stuðningmannasamtökum Manchester United sjást hér að mótmæla Glazer fjölskyldunni.
Félagar úr 1958 stuðningmannasamtökum Manchester United sjást hér að mótmæla Glazer fjölskyldunni. Getty/Peter Byrne

Salan endalausa á Manchester United virðist ætla að teygja sig inn á annað keppnistímabil miðað við hvað er lítið að frétta af málinu. Reglulega berast fréttir af því að salan sé að klárast en  svo gerist ekki neitt.

Viðræður standa enn yfir þar sem tveir keppinautar um að fá að kaupa Manchester United hafa enn ekki komust í mark með kaupin. Vandamálið er þó frekar marklínan sem bandarísku eigendurnir virðast alltaf vera að færa í lengra í burtu.

Tveir í kapphlaupinu

Þetta eru Sheikinn Jassim bin Hamad Al Thani sem vill kaupa Manchester United í heilu lagi og breski auðjöfurinn Sir Jim Ratcliffe sem vill kaupa meirihluta í félaginu en leyfa nokkrum úr Glazers fjölskyldunni að eiga enn hlut í félaginu.

Breska ríkisútvarpið ræddi við menn úr stuðningsmannahóp Manchester United en þeir hafa lengi mótmælt því að Glazer ættin sé enn við völd hjá félaginu. Það er óhætt að segja að menn þar á bæ séu svartsýnir um framhaldið.

1958 hópurinn hefur staðið fyrir mótmælum gegn Glazer fjölskyldunni og tveir úr honum ræddu málin í hlaðvarpsþættinum „How To Buy A Football Club“ á BBC en þeir vildu þó ekki koma fram undir nafni.

„Stuðningsmannahópurinn er stór og brotinn. Fullt af fólki hefur alls konar skoðanir. Um leið og einhver stendur upp og segir sína skoðun þá er hann dæmdur harkalega,“ sagði annar þeirra.

Eyðilögðu félagið fyrir heillri kynslóð

„Skaði þessarar Glazers fjölskyldu veður aldrei tekinn saman að fullu en hún hefur eyðilegt félagið fyrir heillri kynslóð. Þetta er persónulegt fyrir okkur því þetta er okkar samfélag og okkar fjölskylda,“ sagði fulltrúi 1958 samtakanna.

„Fullt af stuðningsmönnum United myndu sætta sig við að falla úr deildinni ef það þýddi að við myndum losna við Glazers fjölskylduna. Sjáðu hvað gerðist þegar Glazers fjölskyldan kom inn. Sumir stuðningsmenn stofnuðu annað félagið. Það sýnir sterka skoðanir.“

„Stuðningsmenn annarra félaga segja að við séu ofdekraðir en þeir væru ekki til í að fólk eins og Glazers fjölskyldan stýrði þeirra félagi.“

1958 samtökin eru ekki hissa á því að þetta taki svo langan tíma.

Mjög pirrandi

„Sjáðu bara tímann sem það tók söluna á Newcastle að fara í gegn. Það var upp á 300 milljónir og Mike Ashley vildi selja. Það tók átján mánuði. Þetta eru kaup upp á sex milljarða punda og það þarf að fera sex fjölskyldumeðlimi ánægða. Þetta hefur þegar tekið átta mánuði. Þetta er mjög pirrandi en þetta gæti tekið ár. Þetta gæti tekið átján mánuði,“ sagði fulltrúi 1958 samtakanna.

Nýjustu fréttir eru að Glazer fjölskyldan ætli að klára söluna á félaginu fyrir komandi tímabil en hversu oft hafa stuðningsmenn United heyrt slíkar fréttir.  Sagan segir okkur að það gangi líklega ekki eftir ekki frekar en í öll hin skiptin þegar salan átti að vera ganga í gegn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×