Fótbolti

Grét eftir að hafa ó­­vart valdið hrylli­legum meiðslum

Sindri Sverrisson skrifar
Marcelo var augljóslega í öngum sínum eftir að hafa brotið á Luciano Sanchez með skelfilegum afleiðingum.
Marcelo var augljóslega í öngum sínum eftir að hafa brotið á Luciano Sanchez með skelfilegum afleiðingum. Getty/Daniel Jayo

Gamla Real Madrid-goðsögnin Marcelo yfirgaf völlinn tárvot eftir að hafa óvart valdið hræðilegum meiðslum og fengið fyrir það rautt spjald, í Buenos Aires í gær.

Eins og sjá má á myndskeiði hér að neðan steig Marcelo óvart á fótlegg argentínska varnarmannsins Luciano Sanchez, með þeim afleiðingum að fótur Sanchez spenntist í afar óeðlilega stöðu. Hann lá eftir og fann augljóslega fyrir miklum sársauka, og í ljós kom á sjúkrahúsi að hann hefði farið úr hnjálið.

Um var að ræða leik í Copa Libertadores, meistaradeild Suður-Ameríku, þar sem Marcelo spilaði með brasilíska liðinu Fluminense gegn Argentinos Juniors, sem Sanchez leikur með. Ljóst var að atvikið, sem varð á 56. mínútu, hafði mikil áhrif á leikmenn en leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Vert er að vara við myndbandi af atvikinu.

Marcelo var bersýnilega miður sín eftir brot sitt og hann skrifaði á samfélagsmiðla eftir leikinn:

„Í dag átti ég mjög erfitt augnablik á vellinum. Ég meiddi óvart starfsbróður. Ég vil óska Luciano Sanchez allra besta bata. Ég sendi þér allan heimsins styrk!“

Fluminense og Argentinos Juniors mætast að nýju á Maracana leikvanginum í Ríó næsta þriðjudag þar sem ræðst hvort liðanna kemst áfram í 8-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×