Áhöfn skips strandgæslu Kína sást koma girðingunni fyrir í gær en Ferdinand Marcos Jr, skipaði strandgæslu Filippseyja að fjarlægja girðinguna í dag, sem var gert.
„Flotgirðingin ógnaði sjómönnum og braut gegn alþjóðalögum. Hún takmarkaði einnig störf og lífsviðurværi filippseyskra sjómanna,“ sagði í yfirlýsingu frá strandgæslu Filippseyja, samkvæmt frétt Reuters.
Scarborough-rif er í um 108 sjómílna fjarlægð frá strandlengju Filippseyja en um 486 sjómílur frá meginlandi Kína.
Kínverjar gerðu fyrir nokkrum árum tilkall til nánast alls Suður-Kínahafs og þar á meðal hafsvæðis ríkja eins og Filippseyja, Taívan, Víetnam, Malasíu og Brúnei. Filippseyjar kærðu Kína fyrir Alþjóðagerðadóminn í Haag, sem komst árið 2016 að þeirri niðurstöður að tilkall Kína væri ólöglegt.
Þrátt fyrir það hafa Kínverjar haldið áfram hernaðaruppbyggingu á svæðinu og hafa þeir aldrei viðurkennt úrskurðinn. Meðal annars hafa þeir byggt heilu eyjurnar, flotastöðvar og flugvelli og komið eldflaugum fyrir á svæðinu.
Talsmaður utanríkisráðuneytis Kína sagði í dag að flotgirðingin hefði verið nauðsynleg þar sem skipi á vegum fiskistofu Filippseyja hefði verið siglt inn á það sem kallað er í yfirlýsingu „kínverskt hafsvæði“.
Talsmaður ráðuneytisins sagði Kína eiga „óyggjandi rétt“ á rifinu.
Hér að neðan má sjá myndefni frá AFP fréttaveitunni sem tekið var upp áður en flotgirðingin var fjarlægð af strandgæslu Filippseyja.
VIDEO: Filipino fishermen rely on regular resupply missions by the Philippines Bureau of Fisheries and Aquatic Resources to continue to fish near the shallow waters of Scarborough Shoal in the disputed South China Sea. pic.twitter.com/weRIm4yKX1
— AFP News Agency (@AFP) September 25, 2023
Frá 2017 hafa sjómenn frá bæði Kína og Filippseyjum veitt við rifið en núverandi stjórnvöld í Filippseyjum segjast ætla að grípa til aðgerða til að tryggja fullveldi ríkisins.
Árið 2016 sagði Alþjóðagerðadómurinn að Filippseyingar hefðu veitt fisk við Scarborough-rif í margar aldir og að fyrri lokanir Kínverja á svæðinu væru ólöglegar.
Yfirvöld á Filippseyjum segjast vera að íhuga að höfða nýtt mál gegn Kína vegna eyðileggingar kóralsrifja á hafsvæði ríkisins.