Íslenski boltinn

Jökull: Emil á að koma til greina í landsliðið

Dagur Lárusson skrifar
Jökull Elísabetarson.
Jökull Elísabetarson. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum ánægður með sigur síns liðs gegn KR í Bestu deild karla í kvöld.

„Þetta var auðvitað bara frábær leikur hjá okkur allt frá upphafi leiks,“ byrjaði Jökull Elísabetarson að segja eftir leik.

„Síðan er það auðvitað bara algjör heiður að fá að spila fyrir þetta fólk hérna í stúkunni sem hætti ekki að syngja frá fyrstu mínútu leiksins. Það er galið að vera með þetta fólk hérna, þetta gefur okkur rosalega mikið inn á vellinum,,“ hélt Jökull áfram að segja.

Stjarnan skoraði fyrra mark sitt snemma leiks og vildi Jökull meina að það hafi sett tóninn.

„Það var mjög mikilvægt og við gerðum það líka mjög vel. Við vissum nákvæmlega hvernig við ætluðum að spila ef þeir ætluðu að pressa okkur og við vissum líka hvernig við ætluðum að gera þetta ef þeir ætluðu að liggja þannig við vorum við öllu búnir.“

Jökull talaði síðan aðeins um Emil Atlason sem skoraði bæði mörk Stjörnunnar en hann vill meina að Emil eigi að vera í næsta landsliðshóp.

„Ef ég fæ að tala aðeins um Emil sérstaklega að þá vil ég meina að hann eigi að koma til greina í næsta landsliðshóp. Hann hefur allt sem framherji þarf til þess að spila fyrir landsliðið. Hann er með hraðann, hann er með góð skot, hann getur haldið boltanum, mikill liðsmaður og vinnur því vel fyrir liðið og fyrir mér hljómar það eins og einhver sem landsliðið getur nýtt sér, “ endaði Jökull á að segja.

Emil Atlason að fagnaVísir / Anton Brink



Fleiri fréttir

Sjá meira


×