Þetta staðfestir Kolbrún Garðarsdóttir, lögmaður Vítalíu, í samtali við Vísi. Hún segir ákvörðunina staðfestingu á því sem Vítalía hafi haldið fram frá upphafi, að þeir Ari Edwald, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson, hafi átt frumkvæði að sáttaumleitan sem hófst í kjölfar sumarbústaðarferðar árið 2021.
Forsaga málsins er sú að Vítalía greindi frá því á Instagram í október 2021 að hún hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi mannanna þriggja í heitum potti í sumarbústað í september 2020 þar sem hún var stödd með þáverandi ástmanni sínum Arnari Grant.
Kolbrún segir að í kjölfarið hafi lögmaður haft milligöngu um sáttaumleitan milli hlutaðeigandi, að frumkvæði mannanna þriggja. Þær umræður hafi runnið út í sandinn og engin sátt verið gerð. Þá segir hún að Vítalía hafi ekki tekið þátt í umræðum á þeim forsendum að hún myndi ekki kæra mennnina ef samningar næðust.
Málinu endanlega lokið
Með ákvörðun ríkissaksóknara er rannsókn á hendur þeim Vítalíu og Arnari endanlega lokið. Þá er rannsókn á hendur þeim Ara, Hreggviði og Þórði einnig endanlega lokið, líkt og greint var frá í ágúst.
Vítalía hafði kært niðurstöðu héraðssaksóknara, þess efnis að málið væri ekki líklegt til sakfellingar, á þeim grundvelli að gögn hafi vantað í málið
Í rökstuðningi ríkissaksóknara kom fram að hægt hefði verið að afla frekari gagna en embættið teldi þó að það breytti ekki sönnunarstöðu málsins. Því væri ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi rannsókn.