Heilbrigðisráðuneyti Palestínu segir fjölda látinna á Gasa nú yfir 1.200, sem er sami fjöldi og lést í árásum Hamas á þorp og bæi í Ísrael á laugardag. Yfir 338 þúsund manns eru sagðir hafa flúið heimili sín á Gasa.
Talsmenn Ísraelshers segja að hernaðaraðgerðir á jörðu niðri myndu hefjast þegar tíminn væri réttur.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun funda með Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, á morgun. Abbas mun funda með Abdullah, konungi Jórdaníu, í Amman í dag.
Fulltrúar Rauða krossins segjast eiga í samskiptum við Hamas og Ísrael vegna gíslana sem Hamas-liðar rændu á laugardag. Unnið er að því að fá þá lausa en einnig að reyna að koma á samskiptum milli gíslanna og ástvina þeirra.

Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði leiðtoga gyðinga í Bandaríkjunum í gær og sagði árásir Hamas á laugardag hafa verið hrein og klár „grimmdarverk“. Sagði hann um að ræða mesta hroðaverkið sem framið hefur verið gegn gyðingum frá helförinni.
Forsetinn sendi einnig viðvörun til Íran um að „stíga varlega til jarðar“. Þá sagði hann að Bandaríkin ynnu að því að reyna að fá gíslana lausa en að hann myndi að sjálfsögðu ekki tjá sig frekar um þær aðgerðir.
Zhai Jun, sendifulltrúi Kína í málefnum Mið-Austurlanda, sagðist hafa átt samtal við Egypta í gær um mögulega aðkomu Kínverja að því að miðla málum og koma á vopnahléi. Þá ítrekaði hann afstöðu Kína að svokölluð „tveggja ríkja lausn“ væri eina fýsilega leiðin til að koma á varanlegum friði á svæðinu.