CrossFit samtökin hafa nú tilkynnt risastóra breytingu á keppnisfyrirkomulagi heimsmeistaramótsins í íþróttinni.
Hér eftir mun aðalhluti heimsleikanna, keppni um heimsmeistaratitil karla, kvenna og liða, fara fram sér. Í raun var tekin sú ákvörðun að henda aldursflokkunum út af heimsleikunum í CrossFit. Fatlaðir fá heldur ekki lengur að keppa á aðalheimsleikunum.
Aldursflokkakeppnin mun nú fá sína eigin heimsleika og sömu sögu má segja af keppni fatlaðra.
Sérmót fyrir táninga og sérmót fyrir öldunga
Unga og gamla CrossFit fólkið keppir meira segja ekki saman á móti því yngra fólkið keppir um heimsmeistaratitilinn á Pit Teen Throwdown en öldungarnir keppa á Legends Championship (Masters).
Keppni fatlaðra mun síðan ráðast á WheelWOD mótinu frá og með næsta ári.
„Við trúum því að allar deildir munu græða á þessu, ekki síst vegna þess að nú getum við tvöfaldað fjölda þeirra öldunga og táninga sem fá að keppa um heimsmeistaratitilinn,“ sagði Dave Castro, íþróttastjóri hjá CrossFit.
Það sjá þó þeir sem vilja sjá að með þessu er í raun verið að auðvelda framkvæmd aðalkeppninnar með því að minnka umfangið. CrossFit samtökin stefna á það að ferðast með heimsmeistaramótið um heiminn í framtíðinni.
Fleiri fá að keppa í flokkunum
Heimsmeistarakeppni karla, kvenna og liða í CrossFit er fyrir vikið orðin mun meðfærilegri sem um leið mun auðvelda þjóðum utan Bandaríkjanna að taka að sér að halda heimsleikana.
Það er hins vegar svekkjandi fyrir bestu táninga og öldunga heims að fá ekki lengur að kynnast aðalheimsleikunum á eigin skinni. Það fá vissulega fleiri að keppa um heimsmeistaratitilinn í eigin persónu en það verður krefjandi fyrir CrossFit samtökin að halda uppi sömu umgjörð á slíkum sérmótum.
Undankeppnin verður þó áfram eins og því munu allir byrja tímabilið saman í opna hlutanum.
Stór spurningarmerki eru líka í kringum styrktaraðila og sýnileika keppninnar um heimsmeistaratitil táninga og öldunga. Þau hafa fengið að stíga inn á stóra sviðið á heimsleikunum, inn á milli aðalkeppninnar, en það verður ekki lengur.