Rúi og Stúi er eftir þá Skúla Rúnar Hilmarsson og Örn Alexandersson nú í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðssonar og frumsamin tónlist í leikritinu er eftir Stefán Þorleifsson. Hér er um skemmtilegt barnaleikrit að ræða þar sem leikarar á öllum aldri fara á kostum. Verkið gengur út á vél, sem Rúi og Stúi hafa smíðað en hún getur gert við hluti, búið til hluti og jafnvel gert nákvæma styttu af sveitarstjóranum.
„Þetta er búið að ganga rosalega vel. Við höfum skemmt okkur konunglega vel við það að koma þessar sýningu á laggirnar og hlegið okkur máttlaust hér hvert einasta kvöld og ég held að það skili sér bara yfir til áhorfenda,“ segir Ólafur Jens.

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt, það er ógeðslega gaman að leika hérna og skemmta fólki og ekki síður að læra nýja hluti, það er bara mjög gaman,“ segir Bergur Tjörfi Bjarnason, 11 ára, sem leikur þjófinn og lögregluna.

“Þetta er algjörlega frábært, börnin eru skemmtilegustu áhorfendur, sem til eru,“ segir Runólfur Einarsson, sem leikur Stúa og Sigurjón Sæland, sem leikur Rúa bætir við, „Þetta er líka í fyrsta skipti, sem leikfélagið hér setur upp barnaleikrit.“
Og flott systkini leika á sviðinu, hann sem sveitarstjóri og hún sem prófessor.
„Þetta er að viðhalda barninu í sjálfum sér, það er það sem skiptir máli, segir Hannes Örn Blandon og systir hans, Íris Blandon, bætir strax við. „Og geðheilsunni“.

En hver er boðskapur sýningarinnar?
„Að gera hlutina sjálfur, já, gera hlutina sjálfur, ekki alltaf að stóla á eitthvað annað eða að einhver annar geri það,“ segja systkinin samtaka um leið og þau hvetja alla, sem vettlingi geta valdið að skella sér á sýninguna í Aratungu.
Hér er hægt að kaupa miða á sýninguna
