Körfubolti

Missti nær tvo og hálfan lítra af blóði eftir högg á HM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Borisa Simanic í leiknum afdrifaríka á móti Suður-Súdan.
Borisa Simanic í leiknum afdrifaríka á móti Suður-Súdan. Getty/Liu Lu

Serbneski körfuboltamaðurinn Borisa Simanic komst í hann krappann á heimsmeistaramótinu í körfubolta í haust.

Læknir serbneska landsliðsins segir að hinn 25 á gamli Simanic hafi í raun verið í mikilli lífshættu eftir slys í leik.

„Hann missti tvo og hálfan lítra af blóði,“ sagði Dragan Radovanovic, læknir serbneska landsliðsins við spænska blaðið Marca.

Þetta gerðist í leik Serbíu og Suður-Súdan en Simanic fékk þarna þungt högg aftan á mjóbakið. Höggið kom þar sem annað nýrað er og hann þurfti í framhaldinu að fara í tvær aðgerðir.

„Ef hann hefði ekki farið í fyrri aðgerðina þá hefði hann verið í mikilli lífshættu. Honum hefði getað blætt út,“ sagði Radovanovic.

Farið var með Simanic á sjúkrahús í Manilla á Filippseyjum þar sem leikurinn fór fram.

Fyrri aðgerðin tókst ekki nógu vel og nokkrum dögum seinna þurfti að fjarlægja skaddaða nýrað í annarri aðgerð.

„Það var ekki hægt að bjarga nýranu. Líkamsvefurinn var dauður og það hefði getað leitt til blóðeitrunar,“ sagði Radovanovic.

Simanic spilar fyrir spænska liðið Casademont Zaragoza og var liðsfélagi íslenska miðherjans Tryggva Hlinasonar á síðustu leiktíð. Simanic ætlar sér að komast aftur inn á körfuboltavöllinn með eitt nýra.

„Endurhæfingin gengur vel. Borisa fer reglulega í skoðun og allt lítur vel út. Honum líður betur og hann er líka að ná sér andlega. Það er mikilvægt miðað við allt sem gerðist. Nú þarf hann bara tíma,“ sagði Radovanovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×