Álftanes vann hina nýliðana í Hamri í Forsetahöllinni í gær en liðið hafði áður unnið Grindavík, Breiðablik og Njarðvík. Álftanesliðið hefur tapað leikjum sínum á móti Tindastól og Þór úr Þorlákshöfn.
Það eru aðeins eitt lið á fyrsta ári sem hefur unnið fleiri leiki í fyrstu sex umferðunum en Álftanes í ár. Tindastóll á metið en liðið vann fimm sigra í fyrstu sex leikjum sínum tímabilið 2014-15. Stólarnir urðu í öðru sæti í deildinni það tímabil og fóru alla leið í lokaúrslitin um Íslandsmeistaratitilinn.
Fimm aðrir nýliðar hafa náð að vinna fjóra af fyrstu sex leikjum sínum og allir hafa þeir komist í úrslitakeppnina vorið eftir sem er stórt afrek hjá liði á sínu fyrsta ári í deildinni.
Engin skotsýning í sókninni
Álftanes er ekki að ná þessum árangri á sóknarleik eða einhverri frábærri skotsýningu. Hinir nýliðarnir í Hamri hafa þannig skorað 22 fleiri stig en Álftanes í vetur þrátt fyrir að vera stigalausir við botninn.
Það er nefnilega í vörninni sem Álftanes hefur lagt grunninn að góðum árangri sínum. Álftanes er þannig með bestu vörn nýliða í fyrstu sex leikjunum frá því að deildin tók upp núverandi fyrirkomulag haustið 1996.
Álftanes hefur aðeins fengið á sig 77,0 stig að meðaltali í leik en næstminnst fengu nýliðar Hamars á 1999-2000 tímabilinu og nýliðar Vals á sig á 2000-21 tímabilinu eða 79,0 stig í leik hvort.
Stólarnir eiga enn metið
Það er líka aðeins umrætt Tindastólslið sem er með betra nettóskor en Álftanes. Stólarnir voru plús 54 stig í fyrstu sex leikjum sínum haustið 2014 en Álftnesingar eru plús 35 stig á þessari leiktíð. Haukarnir frá 2013 deila reyndar því sæti með Álftanesliðinu.
Álftanesliðið er aftur á móti aðeins í 26. sæti meðal nýliða þegar kemur að því að skila stigum upp á töflu í fyrstu sex leikjum sínum. Þar er efst á palli lið Blika frá því í fyrra sem skoraði 105,5 stig í leik eða tíu stigum meira í leik en KFÍ liðið frá 2010 sem er í öðru sæti með 95,5 stig í leik.

- Flestir sigrar nýliða í fyrstu sex leikjunum frá 1996:
- 5 sigrar - Tindastóll 2014-15
- 4 sigrar - Álftanes 2023-24
- 4 sigrar - Haukar 2022-23
- 4 sigrar - Haukar 2013-14
- 4 sigrar - Skallagrímur 2004-05
- 4 sigrar - Fjölnir 2004-05
- 4 sigrar - Hamar 1999-2000
- -
- Besta nettóskor nýliða í fyrstu sex leikjunum frá 1996:
- +54 - Tindastóll 2014-15
- +35 - Álftanes 2023-24
- +35 - Haukar 2013-14
- +28 - Fjölnir 2004-05
- +25 - Haukar 2022-23
- +18 - Skallagrímur 2004-05
- -
- Fæst stig fengin á sig í fyrstu sex leikjunum frá 1996:
- 77,0 - Álftanes 2023-24 77,0
- 79,0 - Hamar 1999-2000
- 79,0 - Valur 2000-01
- 80,2 - Snæfell 2002-03
- 80,7 - Skallagrímur 2012-13
- 81,3 - KFÍ 1996-97
- 81,3 - Höttur 2015-16