Varnarmaðurinn Þorsteinn Aron skrifar undir samning sem gildir út tímabilið 2026 og mun því að öllum líkindum leika með Valsmönnum næstu þrjú tímabil í það minnsta. Hann kemur til félagsins frá enska félaginu Fulham, en hann var á láni hjá uppeldisfélagi sínu, Selfossi, á síðasta tímabili.
Þessi 19 ára gamli varnarmaður lék sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2020. Alls hefur hann spilað 49 leiki á meistaraflokksferli sínum og skorað í þeim fjögur mörk. Þá á hann að baki 18 leiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hann hefur skorað eitt mark.
Þorsteinn er þriðji leikmaðurinn sem Valsmenn kynna til leiks í vikunni, en í gær var greint frá því að félagið hafi fengið þá Bjarna Guðjón Brynjólfsson frá Þór Akureyri og Gísla Laxdal Unnarsson frá ÍA.