Sport

Moneyball-liðið flytur til Las Vegas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lawrence Butler og félagar í Oakland Athletics eru að flytja til Las Vegas.
Lawrence Butler og félagar í Oakland Athletics eru að flytja til Las Vegas. Getty/Ronald Martinez

Oakland Athletics hefur fengið leyfi frá eigendum bandarísku hafnaboltadeildarinnar að flytja liðið sitt á milli borga.

Oakland Athletics er að flytja til Las Vegas og mun væntanlega heita hér eftir Las Vegas Athletics.

„Þessi dagur er ótrúlega erfiður fyrir stuðningsfólk Oakland A's en þetta er frábær dagur fyrir Las Vegas,“ sagði John Fisher, eigandi félagsins.

Þetta verður aðeins í annað skiptið á síðustu fimmtíu árum sem MLB-lið flytur. Það þurfti þrjá fjórðu atkvæða frá eigendum félaga í deildinni til að fá vistaskiptin samþykkt.

Oakland Athletics var búið að berjast fyrir því í tvo áratugi að fá nýjan leikvang en án árangurs. Liðið spilar í Oakland Coliseum sem er minnsti leikvangur deildarinnar og orðinn mjög gamall.

Oakland borg missir því enn eitt félagið því áður hafði borgin missti NFL-lið Raiders og NBA-lið Golden State Warriors. Raiders endaði í Las Vegas, eins og Athletics, en Golden State flutti sig yfir til San Francisco.

Oakland Athletics er kannski þekktast á Íslandi fyrir að vera félagið sem myndin Moneyball er byggð á.

Sú kvikmynd fjallar um það þegar Oakland Athletics vann bandaríska meistaratitilinn árið 2002 eftir að hafa sett saman lið með vanmetnum leikmönnum sem tölfræði og leikgreining sýndu að voru miklu meira virði.

Moneyball-kenningin skilaði titli og hefur aukið mikið áhrif tölfræði og leikgreiningar í uppsetningu bandarískra íþróttaliða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×