„Það er upplifun margra að þetta hafi verið að ‚trenda', ef við slettum, í rétta átt hjá liðinu. Finnst þér kvöldið í kvöld gefa ástæðu til að staldra við og spyrja stórra spurninga,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson í umfjöllun Stöðvar 2 Sport eftir landsleikinn í gær.
Kjartan Atli beindi orðum sínum til Kára Árnasonar sem var sérfræðingur ásamt Lárusi Orra Sigurðssyni.
„Ég myndi segja það. Mér fannst við taka skref aftur á bak og mér fannst þetta ekki gott,“ sagði Kári Árnason.
Einu mómentin þegar leikurinn er búinn
„Einu mómentin sem við eigum raunverulega í leiknum er þegar leikurinn er búinn. Þá fara menn að spila en þá fara þeir líka að beita aðeins lengri boltum og Andri Lucas gerði mjög vel eftir að hann kemur inn á. Hann heldur vel í boltann og tengir við aðra leikmenn,“ sagði Kári.
„Það er svo stutt á milli í þessu. Við vorum aldrei góðir í þessum leik. Aldrei en við skorum samt tvö mörk. Ef menn bara verjast almennilega. Það sem ég set spurningarmerki við er hvernig við ákváðum að pressa,“ sagði Kári.
Við vorum aldrei með í þessu
„Eins og Jói (Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði) kemur inn á þá finnum við ekki taktinn hvað það hvenær við eigum að pressa. Það gerist oft í leikjum að lið er eitthvað ‚off' í pressunni. Ég set spurningarmerki við það að láta vængmennina hlaupa alla þessa leið til að setja pressu á hafsenta hins liðsins,“ sagði Kári.
„Við sáum það trekk í trekk í leiknum að miðsvæðið var bara galopið. Þeir spiluðu bara af vild. Þeir læddu bara leikmönnum inn á miðsvæðið og vörnin þorði ekki að fara með þeim. Þannig opnaðist fyrir þetta,“ sagði Kári.
„Við vorum aldrei með í þessu,“ sagði Kári eins og má sjá hér fyrir neðan.