Innherji

Vöxtum Seðla­bankans haldið ó­breyttum þótt verð­bólgu­horfur hafi versnað

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en ákvörðun peningastefnunefndar um að halda vöxtum óbreyttum í 9,25 prósent var í takt við væntingar markaðsaðila og greinenda. 
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en ákvörðun peningastefnunefndar um að halda vöxtum óbreyttum í 9,25 prósent var í takt við væntingar markaðsaðila og greinenda.  Vísir/Vilhelm

Þrátt fyrir meiri spennu í þjóðarbúinu og versnandi verðbólguhorfur þá hefur peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum í 9,25 prósentum í annað skiptið í röð vegna óvissu um efnahagslegu áhrifin af jarðhræringunum á Reykjanesskaga. Ákvörðunin er í takt við væntingar nærri allra markaðsaðila og greinenda en peningastefnunefndin undirstrikar að mögulega þurfi að hækka vexti enn frekar síðar meir.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar þar sem ákvörðun fyrir óbreyttum vöxtum er rökstutt er rifjað upp að tólf mánaða verðbólgan hafi minnkað lítillega í október og mælst 7,9 prósent. Þá hefði undirliggjandi verðbólga einnig hjaðnað og tekið er að hægja á einkaneyslu og fjárfestingu.

Greiningardeildir allra stóru bankanna höfðu spáð fyrir óbreyttum vöxtum í þetta sinn og það sama á við um könnun Innherja, sem fór fram undir lok síðustu viku og byggði á svörum 23 greinenda á fjármálamarkaði, sjóðstjóra, hagfræðinga og stjórnenda lífeyrissjóða, en allir þátttakendur – að undanskildum einum – áttu von á að vextir yrði áfram 9,25 prósent.

Í byrjun október ákvað peningastefnunefndin sömuleiðis að halda vöxtum óbreyttum sem kom þá flestum greinendum á óvart en nefndin hafði rétt ríflega einum mánuði áður hækkað vextina úr 8,75 prósentum í 9,25 prósent. Taldi meirihluti nefndarinnar rétt að „staldra við“ með þeim rökum að raunvextir hafi hækkað nokkuð á árinu og óvissa væri um framvindu efnahagsmála. Síðar kom fram í fundargerð að ákvörðunin naut aðeins stuðnings þriggja nefndarmenna en tveir hefðu fremur kosið að hækka vexti um 25 punkta.

Samkvæmt yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun sýnir ný spá Seðlabankans að verðbólguhorfur hafi versnað frá því sem áður var talið. Þá hefur spennan í þjóðarbúinu sömuleiðis aukist og gengi krónunnar hefur lækkað nokkuð frá síðustu vaxtaákvörðun.

„Verðbólguvæntingar hafa jafnframt haldist háar og kostnaðarhækkanir virðast hafa meiri og langvinnari áhrif á verðbólgu en áður. Þótt áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram benda verri verðbólguhorfur til þess að það gæti þurft að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar,“ segir nefndin.

Þrátt fyrir þessa þróun þá er það ákvörðun peningastefnunefndar að halda vöxtum óbreyttum í þetta sinn „í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um efnahagsleg áhrif jarðhræringa á Reykjanesi.“ Þá bætir hún við í lok yfirlýsingarinnar að mótun peningastefnunefndarinnar á næstunni muni sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Verðbólguvæntingar hafa jafnframt haldist háar og kostnaðarhækkanir virðast hafa meiri og langvinnari áhrif á verðbólgu en áður.

Í rökstuðningi þátttakenda í fyrrnefndri könnun Innherja nefndu sumir, sem spáðu óbreyttum vöxtum, að þrátt fyrir að raunvextir væru núna loksins farnir að bíta þá verði að hafa í huga að Ísland sé enn langt á eftir öðrum löndum í að ná niður verðbólgunni.

„Þensla er enn mikil innanlands og við eigum enn eftir að sjá markverðan samdrátt í einkaneyslu. Seðlabankinn mun samt væntanlega halda aftur af sér vegna óvissu á Reykjanesi en þá verður hann aftur á móti að vera með harðan tón til að verðbólgumarkmiðið tapi ekki endanlega trúverðugleika.“


Tengdar fréttir

Væntingar um vaxta­toppinn „klár­lega að koma niður“ vegna ó­vissunnar

Jarðhræringar og óvissan um framvindu mála á Reykjanesskaga hafa slökkt í öllum væntingum skuldabréfafjárfesta um mögulega vaxtahækkun þegar peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku. Ávöxtunarkrafa styttri ríkisskuldabréfa hefur lækkað skarpt síðustu daga samtímis því að undirliggjandi raunvextir eru að koma niður, að sögn sjóðstjóra á markaði, en útlit er fyrir að fjármögnunarþörf ríkissjóðs eigi eftir að aukast talsvert frá fyrri áætlun vegna meiri hallareksturs.

Krónan hélt á­fram að falla þrátt fyrir í­trekuð gjald­eyrisinn­grip Seðla­bankans

Seðlabankinn beitti umtalsverðum inngripum á gjaldeyrismarkaði í dag til að reyna stemma stigu við mikilli gengisveikingu krónunnar í tengslum við óvissu vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Þetta voru fyrstu inngrip bankans frá því í janúar á þessu ári en þrátt fyrir að hafa selt gjaldeyri fyrir jafnvirði nærri þrjá milljarða þá lækkaði krónan engu að síður um meira en eitt prósent gagnvart helstu myntum.

Fjár­festar loka fram­virkum samningum með krónunni vegna ótta við eld­gos

Gengi krónunnar hefur fallið skarpt á síðustu dögum samhliða því að auknar líkur eru nú taldar á eldgosi á Reykjanesskaga sem gæti meðal annars raskað verulega starfsemi stórra ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu. Talsvert hefur verið um að fjárfestar séu að loka framvirkum stöðum sínum með krónunni í þessum mánuði sem hefur ýtt enn frekar undir gengislækkun krónunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×