„Ég sagði við strákana inn í klefa að þeir hefðu unnið þetta. Það var ekkert leikskipulag bara strákarnir á gólfinu að taka réttar ákvarðanir, sérstaklega í vörn í síðari hálfleik. Strákarnir eiga hrós skilið,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson í viðtali eftir leik.
Valur var með yfirhöndina á löngum köflum í leiknum en heimamenn gáfust ekki upp og komu til baka sem skilaði sigri.
„Það sem ég var mjög ánægður með og við töluðum um það í leiknum. Hvernig við fórum úr skipti vörninni. Hverjir voru að fara út og hverjir voru að koma inn í staðinn fannst mér ganga mjög vel sem varð til þess að við fengum á okkur tuttugu og fimm stig í síðari hálfleik.“
Douglas Wilson spilaði afar vel í kvöld og endaði með 23 stig. Wilson gerði átján stig í fyrri hálfleik og fimm stig í síðari hálfleik. Kjartan taldi meiðsli hans hafi spilað inn í þar sem hann datt á bakið í fyrri hálfleik.
„Hann var frábær í kvöld. Hann meiddist í byrjun og hafði þá gert tólf stig að ég held. Hann datt síðan á bakið og var lengi að hrista það af sér en þrátt fyrir það gerði hann allt þetta fyrir okkur í kvöld. Hann er frábær leikmaður og hefur sýnt það í vetur.“
Kjartan Atli var ánægður með hvernnig Álftanes náði frumkvæðinu undir lok fjórða leikhluta þegar leikurinn var í langri pásu þar sem dómararnir höfðu í nógu að snúast.
„Mjög ánægður. Líka vegna þess að Valsliðið er klárasta liðið í deildinni og við vorum að fara á móti liði sem þekkir þessar aðstæður mjög vel og mér fannst strákarnir mjög flottir og ég var stoltur af því hvernig þeir voru í brakinu,“ sagði Kjartan Atli að lokum.