„Ástæðan fyrir því að ég vel að fara þessa leið er sú að mér finnst rangt að taka næstum 11% laukahækkun á meðan mikil umræða er um að vera hófstillt í þeirri kjarabaráttu sem fram undan er til að reyna að slá á verðbólgu. Laun æðstu stjórnenda sveitarfélaga eru almennt frekar há enda starfsálag töluvert og ábyrgð mikil. 11 prósenta launahækkun myndi þýða aukinn launakostnað vegna sveitarstjóra upp á hátt í 2,5 milljónir á ári hjá sveitarfélaginu á móti um 1,5 milljón miðað við 6,75% hækkun,“ segir Hulda.

Hún segir þetta ekki hafa verið erfiða ákvörðun.
„Nei, nei, þetta var ekki erfið ákvörðun að mínu mati þar sem ég tel rétt að sýna fordæmi þegar staðan í þjóðfélaginu er eins og hún er. Launin mín eru tengd launavísitölu og eiga að taka hækkun samkvæmt breytingu á launavísitölu einu sinni á ári samkvæmt ráðningarsamningi, eða 1. nóvember ár hvert. Varðandi frekari hækkanir eða ákvarðanir að ári liðnu þá verður tíminn að leiða það í ljós. Það er erfitt að spá um hver þróun launavísitölu verður á næstu 12 mánuðum. Þetta er niðurstaða sem ég komst að fyrir sjálfa mig þetta árið að minnsta kosti," segir Hulda.