Í frétt Vegagerðarinnar kemur fram að alútboð brúargerðarinnar hafi verið auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu þann 3. mars síðastliðinn. Umsóknir hafi borist frá fimm þátttakendum og hafi þeir allir uppfyllt þau skilyrði sem sett voru í útboðsauglýsingunni og verið metnir hæfir.

Fyrirtækin eru: Hochtief, Þýskalandi; IHI, Japan; Ístak, Per Aarsleff og Freyssinet, Reykjavík; Puentes y Calzadas, Spáni; og ÞG verktakar ehf., Reykjavík.
Markmiðið með framkvæmdunum segir Vegagerðin að auka umferðarrýmd, aðskilja akstursstefnur og bæta umferðaröryggi. Framkvæmdaleyfi fékkst frá sveitarfélaginu Árborg og Flóahreppi í september síðastliðnum að lokinni grenndarkynningu þar sem engar athugasemdir bárust.
Stöð 2 fjallaði um útboðið í apríl í vor í frétt sem sjá má hér:
Brúin verður 330 metra löng stagbrú með 60 metra háum turni á Efri-Laugardælaeyju. Brúargólf verður 19 metra breitt og er gert ráð fyrir 2+1 vegi með aðskildum aksturstefnum ásamt göngu- og hjólaleið. Einnig er gert ráð fyrir göngu- og hjólaleið undir brúna á báðum árbökkum.

Með brúnni færist hringvegurinn út fyrir þéttbýlið á Selfossi og fylgir verkinu að leggja nýjan 3,7 kílómetra langan kafla hringvegarins og um einn kílómetra af öðrum tveggja akreina vegum. Gera þarf ný vegamót við hringveginn austan Selfoss, undirgöng fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn ásamt undirgöngum fyrir bíla og gangandi. Einnig er gert ráð fyrir lögnum veitufyrirtækja.

Vegagerðin segir að með þessari framkvæmd styttist hringvegurinn um 1,2 kílómetra og ferðatími styttist að lágmarki um fjórar til fimm mínútur. Einnig muni greiðast úr þeim umferðarteppum sem oft hafi skapast við gömlu Ölfusárbrúna. Gert sé ráð fyrir að umferð þyngri ökutækja verði ekki leyfð á gömlu brúnni þegar sú nýja hafi verið tekin í notkun.