Lið Stjörnunnar og Álftaness hafa verið að gera flotta hluti í Subway deild karla í vetur og hafa nýliðarnir af Álftanesi sýnt það og sannað að þeir eru engir venjulegir nýliðar.
Fyrir níundu umferð deildarinnar eru bæði Garðabæjarliðin með fimm sigra og þrjú töp en úrslit úr innbyrðis leikjum margra liða valda því að Stjarnan var í þriðja sæti en Álftanes í því áttunda.
Nýliðarnir eru hvergi bangnir og Álftnesingar mæta stoltir til leiks í Ásgarði í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Það ætla margir að mæta og styðja við sín lið en mæting á heimaleiki nýliðanna hefur verið til mikillar fyrirmyndar í vetur.
Álftnesingar ætla líka að mála stúkuna fjólubláa því þeir hafa verið að selja stuðningsmannatreyjur og boli í aðdraganda leiksins.
Það vekur sérstaka athygli að bolirnir eru merktir Katalóníu Garðabæjar.
Þetta er skemmtileg skírskotun til Spánar þar sem Katalóníu er sjálfstjórnarsvæði á Spáni og þaðan sem við þekkjum leiki Barcelona á móti Real Madrid. Álftanes sameinaðist Garðabæ í október 2012 og er leikurinn í kvöld því bæjarslagur. Fyrsta línan í stuðningsmannalagi Álftnesinga er einnig „Í Katalóníu Garðabæjar“.
Hingað til höfum við bara séð bæjarslagi í efstu deild í körfubolta í Reykjavík og Reykjanesbæ en nú bætist Garðabær í þennan hóp.
Stjörnumenn eru líka að búa til frábæra umgjörð um leikinn. Justin Shouse mun mæta á svæði með Just Wingin It vagninn sinn. Dúllubar opnar klukkan 17.00 og fyrstu 250 manns á svæðið fá merkta Stjörnuboli.