Í kvöldfréttum Rúv sagði Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, að tugir erinda hefðu borist inn á borð Rúv þar sem stofnunin væri hvött til að draga Ísland úr keppninni en gagnrýni hvað varðaði þátttöku Ísraels væri ekki ný af nálinni.
Málið hefði verið rætt en engin skilyrði hafi verið sett fyrir þátttöku Íslands af hálfu stjórnvalda eða Ríkisútvarpsins. Rúv hefði tekið þátt í keppninni síðan 1986 og stefnt væri á að gera því áfram.
„Við höfum auðvitað bara farið vel yfir stöðuna og komið áhyggjum okkar á framfæri við EBU og í samtölum okkar við aðra aðila, að þá öryggismálum í keppninni þegar hún verður haldin í maí,“ sagði Stefán í frétt Rúv.
Þá taldi Stefán að ekki væri verið að taka pólitíska afstöðu með þátttöku í keppninni og þátttaka Rúv hefði ekkert með pólitíska afstöðu að gera. Jafnframt væri það ekki hlutverk Rúv að taka pólitíska afstöðu.
Rússum vísað úr keppni en ekki Ísraelum
Rússlandi var vísað úr Eurovision í kjölfar innrásar þeirra í Úkraínu í febrúar 2022. Upphaflega stóð til að leyfa Rússum að taka þátt að óbreyttu árið 2022 en þeim var hent úr keppninni eftir að Finnar hótuðu að draga þátttöku sína til baka vegna ákvörðunarinnar.
Í kjölfarið tilkynntu fleiri forsvarsmenn norrænna sjónvarpsstöðva, þar á meðal Stefán, að þau hygðust einnig draga þátttöku sína til baka fengi Rússland að taka þátt.
„Við teljum það óásættanlegt að Rússar taki þátt í Eurovision,“ sagði Stefán þá um málið.