Milei, sem er hægri popúlisti, varaði landsmenn við því að „peningarnir væru uppurnir“ og boðaði jafnframt strangar aðhaldsaðgerðir í efnahagsmálum.
Hinn 53 ára Milei vann óvæntan sigur í forsetakosningunum í landinu í nóvember síðastliðinn þar sem hann boðaði stórfelldar breytingar, en ástand efnahagsmála í landinu hefur verið mjög bágborið síðustu árin.
Breska ríkisútvarpið segir frá því að ræða hins nýja forseta í gær hafi tekið af allan vafa um varðandi það að Argentínumenn eru í þann mund að verða vitni að stefnu í efnahagsmálum sem sé gjörólík þeirri sem fyrri forsetar hafa framfylgt. Hann sagðist munu þurfa að ráðast í stórfelldan niðurskurð sem ætlað væri að draga úr afleitri skuldastöðu ríkisins og draga úr verðbólgu sem mælist nú 140 prósent.
„Aðalmálið er að það er ekkert annað en aðhaldsaðgerðir í boði og það er ekkert annað en lostmeðferð í boði,“ sagði Milei. „Við vitum að til skamms tíma þá mun ástandið versna en við munum njóta ávaxta erfiðisins.
Milei boðaði kosningabaráttunni að hann myndi herða reglur um þungunarrof, slaka á vopnalöggjöf og þá segist hann vera mikill efasemdamaður þegar kæmi að loftslagsmálum.
Milei ávarpaði þjóð sína við forsetahöllina, en við hlið hans var systir hans, Karina, sem búist er við að verði mikil áhrifamanneskja á bak við tjöldin í stjórn Milei.