Sviðið sem Orri og félagar stiga fram á verður bara stærra. Fram undan eru 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar sem dregið verður í á mánudaginn kemur.
FC Kaupmannahöfn mun dragast á móti einu af þeim liðum sem bar sigur úr býtum í sínum riðli í riðlakeppninni.
Það er stórlið á borð við Manchester City, Arsenal, Atletico Madrid, Barcelona, Dortmund og Real Madrid. Orri er með óskamótherja í huga fyrir sextán liða úrslitin.
„Ég væri til í að fá Real Madrid,“ segir Orri Steinn í samtali við Vísi. „Það yrði skemmtilegt að eiga tök á því að fara og spila á Santiago Bernabeu. Það er flottur völlur og geggjuð ára í kringum Real Madrid. Það yrði skemmtilegt að kíkja þangað.“
Real Madrid er eitt stærsta félagslið í heimi og það lið sem hefur oftast unnið þá keppni sem nú ber heitið Meistaradeild Evrópu. Alls fjórtán sinnum.
Og þó svo að FC Kaupmannahöfn muni fara inn í einvígi sitt í sextán liða úrslitunum sem litla liðið á móti vel flestum af þessum mögulegu andstæðingum sem taldir eru upp hér fyrir ofan er alveg ljóst að þeir andstæðingar muni ekki taka neinu sem gefnu í því einvígi.
Frammistöður FC Kaupmannahafnar hingað til hafa munu hafa unnið þeim inn virðingu hjá stærstu liðum Evrópum og þá er ljóst að engu liði mun finnast þægilegt að halda á Parken.
„Ég myndi segja að útileikur á Parken sé með erfiðari leikjum sem þú færð í Meistaradeildinni. Tölfræðin talar sínu máli þar. Þá hafa frammistöður okkar á þeim velli sýnt að við getum spilað vel á móti hvaða liði sem er.
Það er mjög sterkt fyrir okkur að hafa svona vígi á bakvið okkur. Og búa til þennan ótta hjá andstæðingum okkar að mæta okkur á þessum velli.“