Körfubolti

Badmus í Val

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Taiwo Badmus á ferðinni í oddaleik Vals og Tindastóls um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor.
Taiwo Badmus á ferðinni í oddaleik Vals og Tindastóls um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor. vísir/hulda margrét

Írski körfuboltamaðurinn Taiwo Badmus hefur samið við Val. Hann varð Íslandsmeistari með Tindastóli á síðasta tímabili.

Badmus lék með Stólunum tímabilin 2021-22 og 2022-23. Á þarsíðasta tímabili tapaði Tindastóll fyrir Val í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn en á síðasta snerist dæmið við og Stólarnir urðu meistarar eftir sigur í oddaleik á Hlíðarenda.

Í vetur hefur Badmus leikið með Roma á Ítalíu. Hann er hins vegar á leið aftur til Íslands og spilar með Val eftir áramót.

Á síðasta tímabili var Badmus með 15,0 stig, 6,9 fráköst og 1,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í deildakeppninni. Í úrslitakeppninni var hann með 16,5 stig, 6,9 fráköst og 1,3 stoðsendingar.

Valur er á toppi Subway deildar karla með sextán stig, líkt og Þór Þ. Liðin mætast í Origo-höllinni 4. janúar og þar þreytir Badmus væntanlega frumraun sína með Valsmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×