Enski boltinn

„Vildi bara gera þetta til að verða frægur“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ralph var í miklu stuði fyrir leik Tottenham Hotspur og Newcastle United á Tottenham Hotspur Stadium
Ralph var í miklu stuði fyrir leik Tottenham Hotspur og Newcastle United á Tottenham Hotspur Stadium Getty/Julian Finney

Ungur boltastrákur Tottenham vakti mikla athygli á dögunum þegar hann fór að hita upp í leikmannagöngunum áður en liðin fóru inn á leikvanginn.

Tottenham leit út fyrir að hafa náð sér í mikla orku frá drengnum því liðið rúllaði yfir Newcastle í þessum leik og vann sannfærandi 4-1 sigur.

Strákurinn heitir Ralph og var tekinn í viðtal hjá Sky Sports.

„Ég fékk hugmyndina frá pabba mínum. Hann var samt ekki að segja mér að gera þetta en ég vildi bara gera þetta til að verða frægur,“ sagði hinn kokhrausti Ralph.

Myndbandið af honum að hita upp í leikmannagöngunum fór á flug á netinu. Svo var hann kominn í viðtal á Sky og endar í frétt á Vísi. Það er því hægt að segja að það hafi tekist vel hjá honum að verða frægur.

„Ég spurði Son hvort ég mætti frá treyjuna hans en hann lét mig ekki fá hana. Svo hitti ég hann aftur og þá gaf hann mér treyjuna sína,“ sagði Ralph.

Guglielmo Vicario, markvörður Tottenham, sagði að leikmenn liðsins hefðu fengið mikla orku frá því að sjá strákinn svo tilbúinn í leikinn.

„Hann sagði líka við mig að þeir gætu þurft á mér að halda af því að það væri svo margir meiddir,“ sagði Ralph og það vantar ekki sjálfstraustið á þessum bæ. Það má sjá viðtalið við hann hér fyrir neðan. Ef Instagram færslan birtist ekki er gott ráð að endurhlaða fréttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×