Enski boltinn

„Ég grét næstum eftir tæk­linguna“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Rodri heldur um hné sitt eftir tæklinguna í leiknum í gær.
Rodri heldur um hné sitt eftir tæklinguna í leiknum í gær. Vísir/Getty

Manchester City varð í gær heimsmeistari félagsliða eftir öruggan sigur á Fluminense í úrslitaleik. Einn allra mikilvægasti leikmaður City fór meiddur af velli í sigrinum.

Manchester City vann öruggan 4-0 sigur á brasilíska liðinu Fluminense í úrslitaleik heimsmeistarakeppni félagsliða í gær. Tvö mörk Julian Alvarez, mark frá Phil Foden og sjálfsmark brasilíska liðsins tryggðu City titilinn en sigurinn hefði getað orðið afskaplega dýrkeyptur fyrir lið City.

Þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum og staðan 3-0 var spænski landsliðsmaðurinn Rodri tæklaður ansi harkalega af Alexsander Gomes og greip strax um hné sitt. Læknalið City var fljótt inn á völlinn og Rodri reyndi að halda áfram leik en lagðist aftur í jörðina tveimur mínútum síðar og var skipt af velli.

Það sást vel á andlitum Pep Guardiola knattspyrnustjóra City og leikmönnum liðsins hversu áhyggjufullir þeir voru. Rodri er allra mikilvægasti leikmaður City og hefur liðið verið í bölvuðum vandræðum að vinna leiki án hans.

Eftir leik sagðist Spánverjinn hins vegar vera í lagi.

„Ég grét næstum því eftir tæklinguna en það er í lagi með mig,“ sagði Rodri í viðtali við Skysports en eftir leik var hann útnefndur besti leikmaður mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×