Breska ríkisútvarpið hefur þetta eftir Benajmín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels. Hann hafi sagt meðlimum í flokki sínum frá heimsókn sinni á Gasaströndina í morgun. Þá á hann að hafa sagt að hernaðaðaraðgerðum Ísraels á Gasa væri „langt frá því lokið“.
Í gær sagði Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að hann teldi Ísrael eiga að draga úr þunga árása sinna á Gasa. Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum Hamas á Gasa hafa yfir 20 þúsund manns verið drepnir í árásum Ísraelsmanna á Gasa, stór hluti þeirra börn.
Greint hefur verið frá því að minnst sjötíu hafi látist í loftárásum á Al-Maghazi flóttamannabúðirnar á Gasa í gær, aðfangadagskvöld.
Árásum hvergi nærri lokið
Netanjahú hefur áður látið sambærileg ummæli falla, og heitið því að Hamas-liðum verði útrýmt í eitt skipti fyrir öll, og þeim rúmlega 130 gíslum sem þeir tóku í árásum á Ísrael snemma í október verði komið heilu og höldnu til síns heima.
Í dag á hann að hafa upplýst samflokksmenn sína í Likud-flokknum um að stríðinu væri hvergi nærri lokið. Hermenn sem hann hafi hitt á Gasa hafi beðið hann um að halda stríðsrekstrinum áfram.
„Við munum ekki hætta. Við munum berjast áfram og gefa í átökin á næstu dögum. Þetta verður löng barátta sem er ekki nálægt því að vera lokið,“ er haft eftir Netanjahú.